Jafna aðgengi barna að tónlistarnámi í Reykjavík

Skóli og frístund Menning og listir

""

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum 10. mars að úthluta auknu fjármagni til kennslu tónlistarskóla í efri byggðum borgarinnar.

Með viðbótarkennslumagni í þjónustusamningi borgarinnar við tónlistarskóla er stefnt að því að fjölga nemendum í þeim hverfum þar sem þátttaka í tónlistarnámi hefur verið hvað minnst, og stíga skref til að jafna aðgengi barna að tónlistarnámi. Viðbótin kemur til framkvæmda frá og með næsta skólaári.

Um er að ræða 1.200 viðbótar kennslustundir sem dreifast á samningsbundna tónlistarskóla með fastar starfsstöðvar austan Elliðaáa, þ.e. í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi. Þeir nemendur munu njóta forgangs sem eiga lögheimili í skólahverfum þar sem hlutfall barna í tónlistarnámi er lægst.

Tillagan um þessa ráðstöfun kennslustunda er komin frá stýrihópi um framtíðarskipan tónlistarnáms í borginni. Jafnframt hvetur stýrihópurinn til þess að tónlistarskólarnir rýni kennsluhætti sína m.t.t. nýtingar tímanna og skoði með opnum huga hvort auka megi fjölbreytni tilboða í tónlistarnáminu, s.s. aukna hópkennslu, hljómsveitastarf, fjölbreytt samspil og styttri námsleiðir. Sérstaklega er hvatt til þess að þróa leiðir í tónlistarkennslu sem lágmarka tilkostnað foreldra.

Skóla- og frístundaráð samþykkti einnig þá tillögu stýrihópsins að skipa starfshóp sem setja mun fram tillögur að úrlausnum í húsnæðismálum skólahljómsveita til skemmri og lengri tíma og skal hann skila niðurstöðum fyrir 1. maí næstkomandi.

Sjá tillögur stýrihópsins.