Íþróttafólk Reykjavíkur 2019

Mannlíf Íþróttir og útivist

""

Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin í dag.

Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 41.sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í sjöunda sinn kjörin Íþróttakarl, Íþróttakona og Íþróttalið Reykjavíkur en í fyrsta sinn í ár voru tvö lið valin, eitt karlalið og eitt kvennalið.

Íþróttakarl Reykjavíkur 2019 er kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Glímufélaginu Ármanni. Júlían setti heimsmet í réttstöðulyftu og varð í þriðja sæti samanlagt á HM ásamt því að setja Íslandsmet.

Íþróttakona Reykjavíkur 2019 er knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir úr Knattspyrnufélaginu Val. Margrét Lára varð Íslandsmeistari með Val í sumar en hún hefur skorað 255 mörk í 180 leikjum í meistaraflokki ásamt því að leika 124 landsleiki og skora í þeim 79 mörk, fleiri en nokkur önnur Íslensk knattspyrnukona.

Íþróttalið Reykjavíkur í kvennaflokki 2019 er lið Vals í körfuknattleik kvenna sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu. Íþróttalið Reykjavíkur í karlaflokki 2019 er lið KR í körfuknattleik karla sem varð Íslandsmeistari á árinu.

Tólf einstaklingar og fimmtán lið frá tíu félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2019 í dag. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.

Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2019:

  • Ármann – Íslands- og bikarmeistarar í sundknattleik
  • ÍR – Íslandsmeistarar í keilu
  • Júdófélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í júdó
  • Keilufélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í keilu
  • KR – Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla
  • KR – Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
  • Skylmingafélag Reykjavíkur – Íslandsmeistarar í skylmingum
  • TBR - Íslandsmeistarar í liðakeppni í badminton
  • Valur - Íslandsmeistarar í knattspyrnu kvenna
  • Valur – Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik kvenna
  • Valur – Íslands- og bikarmeistarar í körfuknattleik kvenna
  • Víkingur – Bikarmeistarar karla í knattspyrnu
  • Víkingur - Íslands- og bikarmeistarar í borðtennis
  • Víkingur – Íslandsmeistarar í tennis
  • Þórshamar - Íslandsmeistarar karla í kata              

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2019:

· Arnar Davíð Jónsson, Keilufélagi Reykjavíkur

· Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttadeild Ármanns

· Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR

· Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttadeild ÍR

· Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Golfklúbbi Reykjavíkur

· Helena Sverrisdóttir, körfuknattleiksdeild Vals

· Íris Björk Símonardóttir, handknattleiksdeild Vals

· Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingadeild Ármanns

· Kári Árnason, knattspyrnudeild Víkings

· Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnudeild Vals

· Óskar Örn Hauksson, knattspyrnudeild KR

· Snorri Einarsson, Skíðagöngufélaginu Ulli

Við sama tækifæri var nýr söguvefur Íþróttabandalags Reykjavíkur opnaður í tilefni af 75 ára afmæli bandalagsins auk þess sem Íþróttabandalagið fékk viðurkenningu frá ÍSÍ sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.