Íslendingar fremstir meðal jafningja í verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf

Velferð

""

Norræn verðlaunasamkeppni um sjálfstætt líf lokaði fyrir innsendar hugmyndir á miðnætti í gær, miðvikudaginn 18. mars.  Það er skemmst frá því að segja að þátttaka fór fram úr björtustu vonum á Norðurlöndunum en 414 hugmyndir bárust inn í keppnina. Þar af áttu Íslendingar 63 hugmyndir sem er gífurleg þátttaka miðað við höfðatölu.

Frumkvöðlar alls staðar að frá Norðurlöndunum sendu inn hugmyndir að lausnum um hvernig aldraðir og fatlaðir geti lifað sjálfstæðu lífi. Norræna nýsköpunarmiðstöðin stendur að baki keppninnar auk þátttökuborganna, Reykjavíkur, Oslóar, Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Helsinki.

„Við stefndum að því að fá um 150 innsendar hugmyndir eða lausnir en fengum næstum því þrefalt fleiri. Það er frábært að svo margir sýndu keppninni áhuga og við trúum því að hún muni bæði stuðla að frekar nýsköpun og þverfaglegri samvinnu þeirra sem starfa að velferðarmálum á Norðurlöndunum,“ segir Mona Truelsen, verkefnastjóri  hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni.

Norræn dómnefnd mun fara yfir hugmyndirnar og  10. apríl næstkomandi verður tilkynnt um 75 hugmyndir eða þá þátttakendur sem valdir verða til vinnnusmiðju í Kaupmannahöfn núna í vor,  4. og 5. maí. Þar fá þátttakendur tækifæri til að þróa hugmyndir sínar frekar auk þess að mynda þverfagleg tengsl við þátttakendur annarra landa.  Samvinna milli landa er ekki skilyrði fyrir þátttöku en sérstök verðlaun verða veitt fyrir hana.

Eftir vinnusmiðjuna í Kaupmannahöfn fara 25 hugmyndir áfram og þátttakendur fá leiðsögn og stuðning til að þróa sína lausn eða hugmynd  enn frekar. Gerð verður viðskiptaáætlun og lausnin prufukeyrð fyrir markhópinn. Fimm lausnir verða valdar til úrslita og þær munu fá rúmlega fimm milljónir íslenskra króna hver  til að útfæra sína lausn frekar og  prófa hana meðal aldraðra eða fatlaðs fólks  í einhverri þátttökuborganna.  Að lokum fær vinningshafinn 17 milljón króna verðlaun auk þess sem sérstök verðlaun verða veitt fyrir samvinnu milli landa, eða 3,4 milljónir og tæplega 2 milljónir í nemendaverðlaun.

Markmið keppninnar er að Norðurlöndin taki forystu í þróun lausna í velferðarþjónustu á heimsvísu.  Það er óhætt að fullyrða að þátttakan nú lofar góðu.

Nánari upplýsingar á realchallenge.info

Taflan hér að neðan sýnir land, íbúafjölda og fjölda hugmynda frá hverju landi fyrir sig.