Ísak og Guðlaugur heiðraðir fyrir 50 ára starf hjá Reykjavíkurborg | Reykjavíkurborg

Ísak og Guðlaugur heiðraðir fyrir 50 ára starf hjá Reykjavíkurborg

föstudagur, 12. október 2018

Ísak Möller og Guðlaugur Sigmundsson voru heiðraðir í dag fyrir 50 ára farsælt starf hjá Reykjavíkurborg.

 • Ísak Möller og Guðlaugur með Jens Karel Þorsteinsson á milli sín
  Ísak Möller og Guðlaugur með Jens Karel Þorsteinsson á milli sín en hann hélt upp á sitt afmæli í maí.
 • 28 manna hópur var heiðraður í dag
  Hluti hópsins sem átti 30 ára eða lengra starfsafmæli
 • Hér er Ísak fyrir miðri mynd
  Hér er Ísak fyrir miðri mynd
 • Ísak er sá sjötti frá vinstri og Guðlaugur er yst til hægri. Hér með vinnufélögum.
  Ísak er sá sjötti frá vinstri og Guðlaugur er yst til hægri. Hér með vinnufélögum fyrir áratug eða svo.

Tveir starfsmenn hjá skrifstofu reksturs og umhirðu Reykjavíkurborgar eiga 50 ára starfsafmæli á þessu ári og var því fagnað með sérstakri athöfn á starfsdegi í dag. Þeir heita Ísak Möller og Guðlaugur Sigmundsson.

Snjómokstur og hreinsun

Ísak Möller hóf árið 1968 störf hjá Vélamiðstöðinni þegar hún var og hét, en staðsetning hennar var þar sem Höfðatorg er núna. Hann var tvítugur að aldri og varð því 70 ára á þessu ári. Fyrst í stað var hann í vélavinnu hjá borginni og keyrði meðal annars jarðýtu.

Á þessum tíma voru allar framkvæmdir unnar af borginni sjálfri og bæði tæki og mannskapur á hennar vegum. Ísak vann einnig á vélaflutningabíl sem og fólst vinnan í því að flytja tæki á milli staða, til dæmis valtara og malbikunarvélar.

Að vetri til var það snjómokstur og söltun gatna sem var fyrirferðamest í starfinu. Þá þurfti stundum að vakna um miðjar nætur og vinna fram á kvöld, en á þeim tíma voru hvíldartímareglur ekki nógu stífar.

Eftir að hafa starfað hjá Vélamiðstöð fór Ísak yfir til Hreinsunardeildarinnar og var verkstjóri yfir vélsópun á sumrin og í vaktavinnu við söltun og snjómokstur yfir vetrartímann. Breyting varð á starfinu hjá Ísak þegar Hverfastöðvum Reykjavíkur var komið á fót fyrir 30 árum og gegndi hann þar ábyrgðarmiklum störfum, meðal annars sem rekstrarstjóri.

„Mér hefur líkað starfið mjög vel, þetta er fjölbreytt starf og góð samskipti við marga og mikil samskipti á árum áður,“ segir Ísak og að fólk hafi bæði hringt og komið á bækistöðvarnar til að ræða um hvað mætti betur fara eða til að þakka fyrir. „Ég tamdi mér að taka aldrei vinnuna með mér heim,“ segir hann.

Úrræðagóðir og skemmtilegir

Samstarfsfólk þeirra lætur mjög vel að þeim Ísak og Guðlaugi og segja þá vera úrræðagóða, skemmtilega, bóngóða og frábæra samstarfsmenn.

Guðlaugur Sigmundsson hóf störf hjá Reykjavíkurborg árið 1968 eins og Ísak Möller en þá var Geir Hallgrímsson borgarstjóri í Reykjavík.

Guðlaugur byrjaði  hjá Hreinsunardeildinni, sem síðar sameinaðist fleiri deildum og nefndust Hverfastöðvar Reykjavíkurborgar eins og áður segir. Árið 1988 hóf hann störf hjá Hverfastöð Njarðargötu, síðan vann hann á Miklatúni árið 1993, þá á Hverfastöð á Stórhöfða árið 2010 og er nú rekstrarstjóri í Hverfastöð Jafnarseli. Hann hefur verið rekstrarstjóri á fjórum stöðvum en það er ekki hægt að slá það met út, því stöðvunum hefur verið fækkað í tvær.

„Guðlaugur er afslappaður og leysir vandamálin í rólegheitum, hann fær fólk á sitt band, ræðir við verktaka og hefur húmor fyrir sjálfum sér,“ segir deildarstjóri og bætir við að hann sé mikill áhugamaður um Bítlana. Auk þess að vera hæfileikaríkur áhugamaður um listir sem málar og teiknar myndir.

„Þetta er búið að vera fínt,“ segir Guðlaugur sem byrjaði 17 ára hjá borginni. „Ég byrjaði sem verkamaður og fór fljótlega á bíl og varð flokkstjóri og síðar rekstrarstjóri.

Báðir segjast þeir hafa eignast góða vini í starfinu og verið gæfusamir með samstarfsfólk. Þess má geta að um leið og þeir félagar voru heiðraðir þá voru þeir í góðum félagsskap, því 26 manna hópi starfsfólks hjá skrifstofu reksturs og umhirðu og skrifstofu framkvæmda og viðhalds var einnig þakkað í dag fyrir 30 ára starf og meira en það.

Reykjavíkurborg þakkar þeim innilega fyrir atorkuna og trúnaðinn við vinnustaðinn. 

Tengill

50 ára starfsafmæli Jens Karel Þorsteinssonar