Innleiða nálgun þar sem flóttafólk styður við annað flóttafólk

Nokkrir af þátttakendur í námskeiðinu.

Í lok október tóku alls 24 menningarmiðlarar, ráðgjafar, málstjórar og verkefnastjórar sem starfa í samræmdri móttöku flóttafólks í Reykjavík, Reykjanesbæ og Akureyri þátt í námskeiði til að verða svokallaðir MindSpring-hópstjórar. Í hópnum voru einstaklingar frá Afganistan, Palestínu, Sýrlandi, Úkraínu og Venesúela sem hafa upplifað hlutskipti flóttafólks. Í framhaldinu mun Alþjóðateymi Reykjavíkurborgar skipuleggja og innleiða MindSpring-aðferðina í sínu starfi. 

MindSpring er nálgun sem þróuð var af hollenska sálfræðingnum Paul Sterk eftir að hann hafði unnið með flóttafólki um langt skeið og komist að þeirri niðurstöðu að enginn væri betur til þess fallinn að aðstoða flóttafólk við að vinna úr reynslu sinni af flótta, og finna út úr því hvernig það gæti fótað sig og fundið lífi sínu farveg á framandi stað, annar en einhver sem hefur sömu eða svipaða reynslu. Það veitti honum innblástur til að þróa  MindSpring árið 2002.

MindSpring empowers refugees and gives them a strong sense of identity in their new country – Paul Sterk

Markmiðið að skapa öruggt rými

Um er að ræða jafningjafræðslu sem er sniðin að veruleika og þörfum foreldra ungmenna á aldrinum 16–25 ára og barna á aldrinum 9–14 ára. Viðfangsefnin eru mismunandi eftir markhópum en meginmarkmið MindSpring er að skapa öruggt rými fyrir hvern hóp, sem samanstendur af 8–10 manns, til að ræða á eigin móðurmáli reynslu sína, átta sig á eigin styrk og möguleikum, fá upplýsingar um hvar stuðning er að finna og efla þannig með sér sjálfstraust, bjartsýni, von og trú á sjálf sig og framtíðina.

Hver hópur hittir reglulega einn hópstjóra með flóttamannabakgrunn sem, ásamt öðrum sérfræðingi, aðstoðar hópinn við að vinna saman úr sinni upplifun og finna sitt ljós hér og nú og til framtíðar. Hópstjórar með flóttamannabakgrunn hafa leiðandi hlutverk á meðan sérfræðingarnir eru í stuðningshlutverki.

Svipmyndir frá námskeiðinu

Leiðbeinendur frá dönsku flóttamannahjálpinni

Námskeiðið sem haldið var í Gerðubergi var miðað við ungt fólk og fjallaði meðal annars um ólíka menningu og gildi, áhrifamátt samfélagsins, réttindi og skyldur, kyn og kyngervi, sjálfsmynd og breytingu á sjálfsmynd, streitu og áföll. Kenndar voru aðferðir við einmanaleika, þörfina fyrir tengslamyndun og að tilheyra samfélagi. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Laura Kildegaard Rasmussen frá dönsku flóttamannahjálpinni (Danish Refugee Council) og Jette Thulin sálfræðingur. Í Danmörku hefur danska flóttamannahjálpin innleitt MindSpring með góðum árangri. Verkefnið var unnið með styrk frá Þróunarsjóði íslenskra sveitarfélaga.

MindSpring-nálgunin hefur gefið góða raun við að bæta andlega heilsu, efla skilning á mismunandi menningarbundnum gildum og foreldrafærni í löndum þar sem MindSpring hefur verið innleitt; í Afganistan, Belgíu, Bretlandi, Búrúndi, Danmörku, Finnlandi, Írak,  Síerra Leóne og Þýskalandi auk Hollands.