Innblástur fyrir fjölbreytta menntun barna

Mannlíf Menning og listir

""

Fjölmargar menningar- og fræðslustofnanir bjóða upp á endurgjaldslausa fræðslu af ýmsu tagi fyrir börn í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi í borginni. Þessar stofnanir kynna vetrardagskrána 2018-2019 fimmtudaginn 6. september 13 -16:00 á Kjarvalsstöðum og verða með ýmsar uppákomur.

Yfirskrift þessa stefnumóts við menningar- og fræðslustofnanir er Innblástur - Stefnumót við stofnanir sem auka fjölbreytni í menntun barna. 

Meðal þess sem í boði verður fyrir börn og ungmenni í vetur eru tilraunir, tónar, smiðjur, söfn, listir, saga, vettvangsferðir, tungumál, tæki og tól.

Náið samstarf er á milli mennta- og menningarstofnana hjá borginni og er lögð áhersla á  að jafna aðgengi barna að listastarfsemi,  menningu, vísindastarfi og útikennslu svo eitthvað sé nefnt. Með því fá þau nýtt sjónarhorn í náminu, fara út úr húsi, upplifa ævintýri s.s. í leikhúsi og á listasafn og fá fræðslu sérfróðra. Fræðslan er sniðin að því sem börnin eiga að vera að læra hverju sinni.

Stefnumót við menningar- og fræðslustofnanir í borginni styður sérstaklega við þá kennsluhætti sem ný Menntastefna Reykjavíkurborgar boðar.

Þær stofnanir sem kynna starfssemi sína í vetur eru Borgarbókasafnið - Menningarhús í öllum hverfum borgarinnar,Sögubíllinn og Bókabíllinn. Borgarsögusafn: Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafnið, Sjóminjasafnið og Viðey. Listasafn Reykjavíkur: Ásmundarsafn, Hafnarhúsið, og Kjarvalsstaðir. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Barnamenningarhátíð, Bíó Paradís, Borgarleikhúsið, Dansgarðurinn, Grasagarðurinn, Menningarhúsin í Kópavogi, Gufunesbær – miðstöð útivistar og útináms, Listasafn Íslands, Miðja máls og læsis, Mixtúra, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sögur – KrakkaRÚV, UngRÚV, Samtökin, Móðurmál, Vísindasmiðja Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið, Úti í Mýri – alþjóðleg barnabókmenntahátíð í Norræna húsinu.

Allir starfsmenn skóla- og frístundasviðs og aðrir áhugasamir um fræðslustarf fyrir börn og ungmenni eru velkomnir á stefnumót við menningarstofnanir!