Iðnaðarvæði Björgunar í Álfsnesvík og menningarminjar við Þerneyjarsund

Umhverfi Skipulagsmál

""

Björgun mun flytja starfsemi sína í Álfsnesvík samkvæmt skipulagstillögum sem samþykktar hafa verið af borgarráði. 

Reykjavíkurborg hefur í samstarfi við nágrannasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu unnið að því undanfarin ár að finna nýjan stað fyrir efnisvinnslu og hafnaraðstöðu Björgunar sem áður var á Sævarhöfða í grennd við Bryggjuhverfið sem nú mun stækka til vesturs. Skipulagstillögur vegna nýrrar staðsetningar á Álfsnesi hafa verið samþykktar í borgarráði.

Mikilvægt er að áfram verði starfsskilyrði fyrir fyrirtæki eins og Björgun á höfuðborgarsvæðinu, til að þjóna uppbyggingu og mannvirkjagerð á þessu þéttbýlasta svæði landsins. Annar kostur við flutning Björgunar frá Sævarhöfða er að Bryggjuhverfið mun stækka og gæði byggðar og byggðarmynsturs þar aukast.

Dregur úr loftslagsáhrifum

Ekki er eingöngu stuðlað að hagkvæmari þróun byggðar með því fyrirkomulagi, heldur er einnig dregið verulega úr umhverfisáhrifum uppbyggingar og efnistöku. Staðsetning slíks fyrirtækis innan höfuðborgarsvæðis, í sem mestri nálægð við stærstu byggingarsvæði landsins, sparar verulega í akstursvegalengdum og dregur þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna flutnings efnisins.

Efnistaka á hafsbotni dregur jafnframt úr þörf á efnistöku á landi og hlífir þannig landslagsheildum og náttúru. Það er því mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að leiða þessa staðsetningu til lykta.

Fáir ákjósanlegir kostir

Fyrri athuganir á staðsetningu iðnaðarhafna innan svæðisins hafa leitt í ljós að afar fátt er um ákjósanlega kosti, þar sem saman fer mögulegt hafnarstæði, hæfileg fjarlægð frá íbúðarbyggð og lítil umhverfisáhrif. Það voru því líkur á því að enginn kostur gæti talist algóður, þegar horft væri til allra umhverfisþátta. Á fyrri stigum vinnunnar var farið í ítarlegt mat á valkostum sem náði til alls höfuðborgarsvæðisins og var niðurstaða þess mats sú að ásættanlegasta staðsetningin væri á Álfsnesi og hentugustu svæðin fyrir litla höfn væru við Þerneyjarsund.

Samráð við Borgarsögusafn og Minjastofnun

Eftir samráð við Borgarsögusafn og Minjastofnun Íslands, vegna menningarminja á svæðinu, var niðurstaðan sú að ásættanlegast væri að staðsetja athafnasvæði Björgunar yst í Þerneyjarsundi, næst svokallaðri Álfsnesvík, en í upphaflegum áformum var horft á mögulega staðsetningu innar í sundinu.

Það sem studdi einnig við staðarvalið í Álfsnesvík var nálægðin við núverandi iðnaðarsvæði Sorpu og áform um að leggja nýja hraðbraut að höfuðborgarsvæðinu eða Sundabraut, á þessum slóðum með tilheyrandi raski.

Staðsetning iðnaðarsvæðis í Álfsnesvík er því ekki á landsvæði sem er alls ósnortið í dag né verður ósnortið til framtíðar. Það er aftur á móti ljóst að fyrirhugað athafnasvæði Björgunar er staðsett í grennd við mikilsverðar menningarminjar sem vert er að vernda og halda á lofti á komandi árum.  

Hverfisvernd fyrir þrjú minjasvæði

Í ljósi athugasemda Minjastofnunar, skýrslu Borgarsögusafns og álits Skipulagsstofnunar, þá er lagt til að hafinn verði undirbúningur að því að skilgreina hverfisvernd fyrir þau þrjú minjasvæði sem finna má í grennd við fyrirhugað athafnasvæði Björgunar; Kauphöfn við Þerneyjarsund, Sundakot og Glóru.

Ekki er þó talið tímabært að festa slík hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi nú, en það verði gert í tengslum við skipulag Sundabrautar og ákvörðun um endanlega legu brautarinnar þegar frumhönnun framkvæmdar liggur fyrir.

Fyrirhugað svæði Björgunar liggur á milli minjasvæða í Sundakoti og Glóru og uppbygging þar mun ekki raska þeim minjaþyrpingum. Í því samhengi er rétt að undirstrika að engin áform eru um stækkun hins skilgreinda iðnaðarsvæðis og er lóðinni úthlutað með þeim skilyrðum.

Skilgreining hverfisverndar, sunnan svæðisins í Sundakoti og fiskbyrgjum í landi Glóru norðan svæðisins, undirstrikar að ekki verður mögulegt að stækka iðnaðarsvæðið í framtíðinni. Til lengri tíma litið, þegar efnisvinnsla og mannvirki henni tengd víkja af svæðinu, verður mögulegt að þróa svæðið til annarra nota og þá í þágu útivistar, þar sem tækifæri gefst til að nýta hafnarlægið fyrir smábáta.  Þá ætti einnig að verða auðveldara að halda á lofti hinum merkum menningarminjum, ekki síst minjum um hina fornu kauphöfn við Þerneyjarsund.

Alta ráðgjöf vann að tillögunum sem verða nú sendar til Skipulagsstofnunar.

Tengill 

Kynning á skipulagstillögu