Íbúðakjarni við Móaveg opnaður

Velferð

""

Síðdegis í dag voru afhentir lyklar að nýjum íbúðakjarna við Móaveg 10 við hátíðlega athöfn. Í kjarnanum verður fimm einstaklingum gert kleift að halda eigið heimili með aðstoð starfsfólks. Íbúðirnar eru ýmist tveggja herbergja eða stúdíóíbúð og sérsniðnar að þörfum íbúa. Fyrstu íbúar munu flytja inn í október.

Íbúðakjarninn er vel staðsettar með tilliti til nærþjónustu. Starfsemin við Móaveg mun einnig veita ellefu öðrum einstaklingum í Grafarvogi þjónustu og stuðning til sjálfstæðs lífs á eigin heimili.

Mikil eftirvænting og góð stemmning ríkti þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti íbúum lyklana formlega í dag. Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir að markmið þjónustunnar sé að styðja fólk til þess að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf á sínum eigin forsendum. Regína segir jafnframt að bygging íbúðakjarnans við Móaveg sé mikilvægur áfangi í að framfylgja húsnæðisáætlun og gott dæmi um vel heppnaða útfærslu þar sem Félagsbústöðum er úthlutað ákveðnu hutfalli af íbúðum við lóðaúthlutun. Miklar væntingar séu gerðar til þeirrar faglegu og nútímalegu þjónustu sem veitt verði í íbúðakjarnanum.

Framkvæmdir við íbúðakjarnann við Móaveg hófust í mars 2018. Kostnaðaráætlanir hafa staðist og framkvæmdatíminn skemmri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Íbúðafélagið Bjarg sá um byggingu íbúðakjarnans í samráði við Félagsbústaði og sérfræðinga velferðarsviðs í málefnum fatlaðs fólks.

Forstöðumaður íbúðakjarnans er Ingibjörg Elín Jóhannsdóttir og hefur hún hafið störf.  

Tengt efni:

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar