Íbúar íbúðakjarnans fá skynörvunardýnu að gjöf frá Oddfellow

Velferð Mannlíf

""

Rebekkustúkan no.7 Þorgerður IOOF á Íslandi færði íbúum íbúðakjarnans í Mururima 4 höfðinglega gjöf á dögunum. Stúkan veitti veglegan styrk til kaupa á skynörvunardýnu sem mun án efa auka lífsgæði íbúa hússins.

Sérstakt skynörvunarherbergi hefur verið útbúið í íbúðakjarnanum þar sem unnið er með hugmyndafræði sem nefnist Snoezelen. Um er að ræða hollenska skynörvunarleið til að örva skynfæri og er lögð áhersla á vel skipulagt skynörvunarumhverfi sem er öruggt friðsælt og róandi. Slík rými eru sérstaklega fyrir þá sem eiga við ýmiskonar skyntruflanir að stríða og/eða eru með skerta líkamsstarfsemi eða líkamsvitund. Skynörvunardýnan kemur sér því afar vel inn í skynörvunarherbergi i Mururima.

Herbergið er í þægilegum og mildum litum en aðaláherslan er á umhverfið, rýmið, húsgögnin, ýmsa ljósgjafa sem og hljóðgjafa svo eitthvað sé nefnt. Einstaklingurinn nýtur hvíldar frá venjubundnu áreiti í þægilegu og rólegu andrúmslofti með dempaðri,mildri birtu og jafnvel spiluð róandi og seiðandi slökunartónlist. Upplifun er einstaklingsbundin, getur verið slökun fyrir suma en örvun fyrir aðra. 

Ástráður Þór Proppé, íbúi í Mururima, tók við gjöfinni og prufaði strax dýnuna í skynörvunarherberginu.