Íbúar höfuðborgarsvæðisins mjög jákvæðir gagnvart ferðamönnum

Ferðamál Mannlíf

Nær 85% íbúa höfuðborgarsvæðisins eru jákvæðir gagnvart ferðamönnum á svæðinu . Mynd: Ólafur Daði Eggertsson

Nær 85% íbúa höfuðborgarsvæðisins eru jákvæðir gagnvart ferðamönnum á svæðinu og yfir 93% segjast aldrei eða sjaldan hafa orðið fyrir ónæði frá ferðamönnum við heimili sitt. Nær 87% telja erlenda ferðamenn fremur eða mjög vinsamlega í samskiptum við íbúa. Þetta er meðal niðurstaðna  könnunar sem Maskína vann fyrir Höfuðborgarstofu nú í apríl, en slík könnun er lögð fyrir árlega.

Könnunin fjallaði um viðhorf til ferðaþjónustu og ferðamanna og var lögð fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu 6.- 25. apríl síðastliðinn. Niðurstöðurnar sýna að íbúar eru almennt mjög jákvæðir gagnvart ferðamönnum, þeir telja jákvæðar hliðar ferðaþjónustu vega þyngra en neikvæðar og telja hagsmuni sína og ferðamanna fara vel saman. „Við fögnum þessum niðurstöðum enda leggur Reykjavíkurborg mikla áherslu á að ferðaþjónustan sé jákvæður drifkraftur sem þróast í góðri sátt við íbúa, atvinnulíf, umhverfi og menningu,“ segir Lína Petra Þórarinsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu. 

Stór hluti svarenda vill fjölgun ferðamanna

Markmið ferðamálastefnu borgarinnar er að minnst 80% íbúa séu jákvæðir í garð ferðaþjónustu og samkvæmt könnuninni eru 84,5% mjög eða fremur jákvæðir og innan við þrjú prósent fremur eða mjög neikvæðir. Þá vekur athygli að samkvæmt niðurstöðunum finnst tæpum 37% íbúa fjöldi ferðamanna í sínu hverfi á sumrin of lítill eða allt of lítill og yfir fjórðungur svarenda myndi kjósa fjölgun ferðamanna heilt yfir, frá því sem var fyrir Covid-faraldurinn. Yfir 92% telja framboð veitingastaða hafa aukist með fjölgun ferðamanna. 

Jákvæðni eykst eftir heimsfaraldur

Lína Petra segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart. „Kannanir allt aftur til ársins 2015 hafa sýnt að viðhorf langflestra íbúa til ferðamanna er mjög jákvætt. Hins vegar er áhugavert að sjá að hlutfallið hefur hækkað enn meira eftir heimsfaraldurinn. Fólk hefur upplifað hversu mikið gildi ferðaþjónustan hefur fyrir borgina, ekki bara þegar kemur að afkomu heldur einnig hvað varðar til dæmis framboð á veitingastöðum og afþreyingu,“ segir hún. „Það er einstaklega ánægjulegt að sjá hversu jákvæðir íbúar eru gagnvart ferðamönnum í borginni. Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein sem bætir hag íbúa og eykur fjölbreytni í afþreyingu og þjónustu. Því er mikilvægt að hún þróist í góðum takti við hagsmuni íbúa, líkt og þessar niðurstöður sýna okkur að raunin er í Reykjavík.“

Hér fyrir neðan er hlekkur þar sem skoða má könnunina.