Í hvaða bók á ég heima? Ráðstefna um barna- og unglingabækur

Mannlíf Menning og listir

""

Spennandi ráðstefna um barna- og unglingabækur verður haldin í Gerðubergi laugardaginn 3. mars milli kl. 10.30-13.30.

Á ráðstefnunni verður sjónum einkum beint að raunveruleika barnabóka, birtingarmyndum kynjanna og hvort barnabækur séu í takt við tímann. Forsetafrú Eliza Reid mun ávarpa ráðstefnugesti og setja ráðstefnuna. Fundarstjóri verður fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason.

Meðal þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni eru Árni Matthíasson, blaðamaður, sem rifjar upp barnabækur æsku sinnar. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastjóri jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, fjallar um áhrif dægurmenningar á samskipti kynjanna. Ásta Rún Vargerðardóttir sálfræðingur fjallar um þau fjölskylduform sem birtast í barna- og unglingabókum og að lokum mun Erlingur Sigvaldason fjalla um barna- og unglingabækur út frá sjónarhorni hingsegin unglinga.  

Að ráðstefnunni lokinni verður tilkynnt hvaða fimmtán barna- og unglingabækur sem komu út á árinu 2017 eru tilnefndar til Barnabókmenntaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Ráðstefnan er opin öllu áhugafólki um íslenskar barna- og unglingabækur. Að henni standa Síung, Félag fagfólks á skólasöfnum, IBBY, SFS – skólasafnaþjónustan, Upplýsing - félag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Borgarbókasafnið.