Hvetjum starfsfólk leikskólanna!

Skóli og frístund

Verðlaunahafar hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs ásamt borgarfulltrúum

 Auglýst er eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs vegna leikskólastarfs 2020.  

Um alla borg fer fram gróskumikið fagstarf með ungum börnum í leikskólunum. Á fyrsta skólastiginu er starfað af metnaði í margvíslegum þróunarverkefnum, í alþjóðlegu samstarfi, gerðar tilraunir, bryddað upp á nýjungum og efnt til samstarfs við aðra leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðvar, listamenn eða menningarstofnanir.   

Vilt þú vekja athygli á slíkum verkefnum í leikskólastarfinu? 
Viltu veita starfsfólki leikskólanna verðuga hvatningu fyrir metnaðarfullt fagstarf og/eða nýbreytni?
Veistu af einhverjum tilraunum sem vert er að veita viðurkenningu? 

Allir geta tilnefnt til verðlaunanna; foreldrar, ömmur og afar, starfsfólk, leikskólar, grunnskólar, frístundamiðstöðvar, aðrar stofnanir og samtök. Við val á verðlaunahöfum verður haft til hliðsjónar að verkefnið sé öðrum til eftirbreytni og hvatning til góðra verka, svo og að fjölbreytt verkefni fái viðurkenningu. Þrjú verkefni sem skara fram úr verða verðlaunuð og fær starfsstaður viðurkenningarskjal og verðlaunagrip til eignar.

Skilafrestur tilnefninga er til 13. desember 2019.

Tilnefningar sendist á sfs@reykjavik.is

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framsækið leikskólastarf verða afhent á fagráðstefnu fyrir leikskólastarfsfólk  7. febrúar 2020.