Hverfisskipulag fyrir Árbæ, Ártúnsholt og Selás samþykkt

Umhverfi Skipulagsmál

""

Hverfisskipulag fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás ásamt skipulagsleiðbeiningum var samþykkt í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur í dag eftir að hafa verið í auglýsingu. Unnið hefur verið úr athugasemdum og ábendingum  sem bárust frá íbúum, Skipulagsstofnun, Veitum og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Tekið var tillit til fjölmargra ábendinga og athugasemda íbúa m.a. um tillögu í skipulaginu um uppbyggingu á fjölbýlishúsi á opnu svæði við Birtingakvísl 3-9. Fallið hefur verið frá þeim áformum og verður svæðið því óbreytt opið svæði.

Fyrstu hverfin með hverfisskipulag

Hverfin verða þau fyrstu í Reykjavík með hverfisskipulagi en eitt af markmiðum skipulagsins er að  gera hverfin vistvænni og sjálfbærari og í stakk búin til að þróast í takt við breyttar áherslur í samfélaginu.

Aldrei hefur verið farið í eins viðamikið samráð við íbúa við skipulagsgerð í Reykjavík eins og við gerð hverfisskipulags. Þúsundir borgarbúa á öllum aldri hafa komið að vinnunni í þeim fimm borgarhlutum sem vinna við hverfisskipulag er komin af stað í - allt frá grunnskólabörnum sem unnið hafa að módelum af hverfunum til einstaklinga sem sitja í rýnihópum eða mæta á samráðsfundi í hverfunum. 

Með tilkomu hverfisskipulags og sérstakri hverfisskipulagssjá, sem opnar um leið og hverfisskipulagið hefur fengið lögformlega staðfestingu, verður einfaldara en áður fyrir íbúa að sækja um og gera breytingar á fasteignum sínum, s.s að byggja kvisti, koma fyrir nýjum svölum, stækka húsnæði með viðbyggingum og fjölga íbúðum í þegar byggðum húsum.

Heimildir hverfisskipulagsins geta aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum í grónum hverfum og þannig bætt nýtingu ýmissa innviða, s.s. grunn- og leikskóla þar sem ná má fram umtalsverðu hagræði í rekstri með jafnari íbúasamsetningu hverfa.

Heimildir hverfisskipulags miða einnig að því að styrkja fjölbreytta þjónustu og verslun í hverfiskjörnum í göngufæri við íbúana sem hefur jákvæð áhrif á mannlíf og samgöngur innan hverfanna.

Unnið hefur verið að hverfisskipulaginu  í nokkur ár í samráði við fagfólk og íbúa. Næstu hverfisskipulagsáætlanir sem lagðar verða til kynningar og  umfjöllunar eru fyrir Breiðholt, Hlíðar og Háaleitis- og  Bústaðahverfi.

Tenglar 

Hverfisskipulag