Hverfið mitt - kosning hafin | Reykjavíkurborg

Hverfið mitt - kosning hafin

miðvikudagur, 17. október 2018

Kosningar í verkefninu Hverfið mitt hefjast í dag 17. október og standa yfir til 30. október. Þetta er í sjöunda sinn sem íbúar í Reykjavík velja verkefni  til framkvæmda í hverfum borgarinnar. Reykjavíkurborg leggur alls 450 milljónir til verkefna í hverfunum sem íbúar munu kjósa.

  • Hvað kýst þú í ár?
    Hvað kýst þú í ár?

Ungmenni sem verða 15 ára á árinu geta kosið í fyrsta sinn

Sífellt er verið að þróa verkefnið, vefsíðuna og samráðsferlið, til að gera það sem aðgengilegast fyrir alla. Nýjung í ár er að kjósendur sem verða 15 ára á árinu geta nú kosið á netinu en áður var miðað við 16 ár. Mikilvægt er að gefa ungmennum sem eru hvað mest á ferðinni í hverfunum, á leið í skóla eða tómstundir, færi á að taka þátt í að móta sitt hverfi, og það er ágæt þjálfun í lýðræðisþátttöku fyrir ungmenni að taka þátt í kosningum eins og Hverfinu mínu þar sem árangur þátttökunnar er sýnilegur og skýr.

Framkvæmd kosningarinnar

Opnað var fyrir kosningavefinn á miðnætti 17. október á slóðinni hverfidmitt.is. og geta íbúar í Reykjavík nýtt sér kosningarétt sinn í tvær vikur eða til og með 30. október. Kjósendur velja fyrst borgarhluta og kjósa síðan á milli verkefna í hverfinu upp að þeirri upphæð sem til ráðstöfunar er. Ekki er nauðsynlegt að velja fyrir alla upphæðina sem hverfið hefur til ráðstöfunar. Hægt er að gefa einni hugmynd aukið vægi með því að sérmerkja hana með stjörnu. Ekki er skylda að kjósa í þeim borgarhluta sem viðkomandi býr, en eingöngu er hægt að kjósa í einu hverfi. Notendur auðkenna sig til að staðfesta kosningu og stendur þar valið á milli rafrænna auðkenna og Íslykils Þjóðskrár Íslands. Mögulegt er að greiða atkvæði oftar en einu sinni, en það er síðasta atkvæðið sem gildir.

Hugmyndasöfnun á þessu ári gekk vel og bárust 820 hugmyndir. Teymi fagfólks á umhverfis- og skipulagssviði mat í framhaldi hvaða hugmyndir væru tækar í kosningu og hverfisráð stilltu upp allt að 25 hugmyndum í hverju hverfi sem kosið verður um í nóvember.

Metþátttaka

Í fyrra var slegið met í kosningaþátttöku en þá kusu 10,9% þeirra sem atkvæðisrétt höfðu. „Við viljum auðvitað slá þátttökumetið aftur og erum viss um að 15 ára ungmennin, sem fá nú að kjósa í fyrsta sinn munu koma sterk inn í ár,” segir Unnur Margrét  Arnardóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg. „ Á undanförnum árum hefur þátttaka í íbúakosningum og hugmyndasöfnun aukist jafnt og þétt og það bendir til þess að borgarbúar vilja taka þátt í að móta hverfin í borginni. ”

Hverfið mitt er árlegt samráðsverkefni Reykjavíkurborgar og Íbúa ses. Verkefnið hefur staðið yfir síðan 2011 og er í tveimur hlutum. Fyrst fer fram hugmyndasöfnun meðal íbúa í hverfum borgarinnar á vefnum. Farið er nákvæmlega yfir allar innkomnar hugmyndir. Þeim er síðan stillt upp til kosninga með aðkomu hverfisráða. Að lokum fara fram rafrænar  kosningar um hvaða hugmyndir skuli framkvæma.  

Kjóstu um verkefni á hverfidmitt.is