Hvatningarverðlaun veitt á Höfuð í bleyti

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur veitti fyrir helgi hvatningarverðlaun ráðsins fyrir frístundastarf og  fyrir samstarfsverkefni í leikskóla, skóla og frístundastarfi.  Verðlaunin voru veitt á Höfuð í bleyti sem er uppskeruhátið starfsfólks frístundamiðstöðva borgarinnar.

Að þessu sinni voru veitt þrenn verðlaun til starfsstaða frístundamiðstöðva og ein viðurkenning fyrir samstarfsverkefni. 32 tilnefningar bárust ráðinu vegna 23 verkefna og var úr vöndu að ráða hjá dómnefnd. Verðlaunin í ár fengu verkefni sem snúa að kynfræðslu, sjálfsmati og tilfinningum unglingsdrengja og stúlkna og því þegar barn byrjar á frístundaheimili.

Hópstjórar í Höllinni

Félagsmiðstöðin Höllin fékk viðurkenningu fyrir verkefni með unglingsdrengjum í Höllinni. Unglingsdrengjum var veitt ábyrgðarhlutverk í sumarstarfi Hallarinnar 2018. Þeim var ætlað að vera fyrirmyndir og aðstoða starfsfólk með sumardagskrá í félagsmiðstöðinni. Höllin býður börnum með fötlun á aldrinum 10-16 ára upp á skipulagt frístundastarf allan ársins hring. Þessir drengir unnu að verkefninu í þrjár vikur og fengu vinnuskólalaun fyrir á meðan. Sumir drengjanna tóku algerum stakkaskiptum við það að fá ábyrgðarstöðu og finna fyrir tilgangi í starfinu. Í vetur hefur hluti drengjanna verið í frekari þjálfun hjá starfsfólki til að undirbúa sig og setja sér markmið fyrir Hópstjórastarfið í sumar. Að mati dómnefndar er verkefnið fordæmisgefandi og aðrar félagsmiðstöðvar geta nýtt sér það. Sú aðferð að veita krökkum ábyrgð, treysta þeim og valdefla til að þau eigi hlutdeild í sinni eigin lausn er komin til að vera.

Velkomin í frístundaheimilið þitt

Frístundaheimili Tjarnarinnar sendi öllum verðandi fyrstu bekkingum í frístundaheimilum Tjarnarinnar bókina Velkomin í frístundaheimilið þitt áður en skólaganga þeirra og þar með dvöl í frístundaheimilinu hófst. Í bókinni eru Börnin boðin velkomin á sitt frístundaheimili á skemmtilegan og notalegan máta og gefst þeim tækifæri til að fara með foreldrum sínum í gegnum dagsskipulagið á frístundaheimilinu. Textinn gefur börnunum skýra mynd af því hvernig dagurinn á frístundaheimilinu gengur fyrir sig  þó þau séu ekki læs á ritmál, eða hafi ekki íslensku að móðurmáli. Bókin var gefin út á áþreifanlegu formi og send í bréfpósti stíluð á barnið. Bókin gegnir sérstaklega veigamiklu hlutverki fyrir kvíðin börn, en kvíði getur haft hamlandi áhrif á möguleika þeirra til að njóta verunnar á frístundaheimilinu. Með því að fara í gegnum hvernig dagurinn þar verður með foreldrum sínum í öryggi heimilsins verða þau öruggari um hvað bíður þeirra og hvers skuli vænta. Að mati dómnefndar er hér er á ferðinni metnaðarfullt verkefni  sem hefur það markmiði að bjóða öll börnin í borgarhlutanum velkomin á frístundaheimilin. Bókin veitir börnum og foreldum þeirra, óháð uppruna, góða innsýn inn í starfið og hvers sé að vænta.

Essið fyrir unglingsstúlkur

Essið er sértækt hópastarf í félagsmiðstöðinni Frosta í Hagaskóla þar sem unglingsstelpur í 10. bekk læra hvernig notkun dagbóka eykur sjálfsskilning. Mikið er lagt upp úr sjálfsmildi, sköpun og jákvæðum samskiptum í gegnum æfingar, dagbókaskrif og aðra listsköpun. Markmið hópastarfsins er að búa til rými fyrir stelpurnar til að tjá sig, spyrja spurninga, leika sér, skapa og fara út fyrir þægindarammann sinn. Mikil ánægja hefur verið með þetta námskeið. Búið er að þróa leiðbeiningar fyrir aðra sem vilja leiða svipað hópastarf með þessum áherslum. Að mati dómnefndar er hér á ferðinni verkefni þar sem farnar eru nýjar leiðir við að efla sjálfstraust og sjálfsskilning með æfingum, dagbókarskrifum og annarri listsköpun.

Samstarfsverkefni um kynfræðslu

Félagsmiðstöðvarnar Fjörgyn og Hólmasel og grunnskólarnir Foldaskóli og Seljaskóli fá viðurkenningu fyrir samstarfsverkefni um kynfræðslu. Verkefnið verður til vegna óska Reykjavíkurráðs ungmenna um aukna fræðslu með meiri áherslu á fjölbreytileika. Farið verði yfir áhrif félagslegra þátta kynhegðunar í kynfræðslu og að kynfræðsla byrji fyrr á skólagöngunni. Einnig þarf að auka aðgengi ungmenna að dömubindum, túrtöppum og smokkum. Haustið 2018 hófu tvær félagsmiðstöðvar, Fjörgyn og Hólmasel, tveir grunnskólar, Foldaskóli og Seljaskóli og skólahjúkrunarfræðingar að vinna eftir tillögum ungmenna um stefnumótun í kynfræðslu. verkefnið er sett upp sem þriggja ára tilraunaverkefni og verður svo nýtt til að innleiða sams konar breytingarnar á öðrum starfsstöðum. Að mati dómnefndar er hér brugðist við þörfum sem koma beint frá unglingunum sjálfum. Lögð áhersla á gott samstarf félagsmiðstöðva, grunnskóla og skólahjúkrunarfræðinga, auk þess sem áhersla hefur verið lögð á samráð við unglingana sjálfa. Verkefnið stuðlar að góðri og markvissri kynfræðslu sem skilar sér í betra kynheilbrigði ungs fólks.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer á vegum borgarinnar og til að veita starfsfólki jákvæða hvatningu og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru rós í hnappagat starfsins sem þau hlýtur en þau eru viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu barna og unglinga og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir. Verkefni sem hlutu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs í ár fengu verðlaunagrip, útskorinn fugl eftir Ingibjörgu H. Ágústsdóttur listakonu í Stykkishólmi, en samstarfsverkefnið  fékk viðurkenningarskjal.

Dómnefndin var skipuð fulltrúum skóla- og frístundaráðs, fulltrúum foreldra, fulltrúa félags fólks í frítímaþjónustu og starfsmanns af skrifstofu SFS. Fulltrúar skóla- og frístundaráðs voru Pawel Bartoszek, sem var formaður nefndarinnar, Alexandra Briem, Katrín Atladóttir og Þorkell Heiðarsson. Fulltrúi foreldra í dómnefnd var Sigríður Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Samfoks, fulltrúi félags fólks í frítímaþjónustu var Hulda Valdís Valdimarsdóttir og fulltrúi af skrifstofu skóla- og frístundasviðs var Sigrún Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri.