Hvatningarverðlaun fyrir leiklist, Lopputal og forvarnir

Skóli og frístund

""

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar voru afhent í dag á Höfuðið í bleyti, uppskeruhátíð frístundastarfsfólks í borginni.

Uppskeruhátíð og fagstefna starfsfólks frístundamiðstöðvanna, Höfuð í bleyti, fór fram í gegnum fjarfundarbúnað að þessu sinni og voru haldnar fimm málstofur og haldin alls 20 erindi.

Þemað í ár var heilbrigði, einn af grunnþáttum menntastefnu Reykjavíkurborgar, Látum draumana rætast. Þar segir að vellíðan barns í daglegu lífi leggi grunninn að virkri þátttöku, aukinni færni og árangri í skóla- og frístundastarfi.

Aðalfyrirlesari var Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum, sem flutti erindið Heili í mótun – Um þroska heilans, það sem breytir honum og tengsl við draumaveröldina. Lára fór yfir þroskasögu heilans og fjallaði um fíkn, nikótín, koffín, orkudrykki, svefn og forvarnir.

Í málstofum fór fram kynning á áhugaverðum þróunarverkefnum á vettvangi frístundastarfsins, en flest þeirra byggja á menntastefnu borgarinnar og hafa fengið styrk sem lið í að innleiða stefnuna.  

Meðal verkefna sem fjallað var um er;
Betra líf í Bústöðum – Heilsuefling barna og unglinga
Heilsa og hugarró á frístundaheimilum
Þróun rafíþróttastarfs í frístundastarfi barna
Siðfræðikennsla í frístundastarfi

Fyrirlestrar verða aðgengilegir á vefsíðu Höfuð í bleyti 2020.

Hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpunar- og þróunarstarf 
Hefðinni samkvæmt voru hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs afhent á fagstefnunni þótt verðlaunaafhendingin sjálf færi fram með óhefðbundnum hætti, þ.e. í gegnum fjarfundabúnað og myndbandsupptöku.  Í ár voru veitt þrenn verðlaun og tvær viðurkenningar, önnur fyrir nýsköpun og þróunarstarf og hin fyrir samstarfsverkefni.

Hvatningaverðlaun fengu frístundaheimilið Fjósið, frístundaheimilið Kastalinn og félagsmiðstöðvarnar Frosti, 105, 100og1 og Gleðibankinn.

Frístundaheimilið Fjósið fékk verðlaunin fyrir verkefnið Lopputal. Á frístundaheimilinu hefur verið komið upp aðstöðu fyrir skepnur; kanínur og naggrísi og er það verkefni barnanna ásamt starfsfólki að hlúa að þeim. Sérstaklega hefur verkefnið nýst til að styrkja stöðu barna sem þurfa á stuðningi að halda.

Frístundaheimilið Kastali fékk verðlaunin fyrir verkefnið Leiklistarhópur en í Kastala hefur Þórný Helga Sævarsdóttir staðið fyrir leiklistarstarfi síðastliðin 7 ár við ótrúlegan orðstír. Hún hefur stjórnað uppsetningu á leikritum og söngleikjum, m.a. Grease og Mamma mía.

Félagsmiðstöðvarnar Frosti,105, 100og1 og Gleðibankinn fengu verðlaun fyrir forvarnarverkefnið Treystum böndin  sem byggir á samstarfi við foreldra í hverfinu til að bregðast við áhættuhegðun, þjálfa vettvangsstarf og styrkja foreldrasamstarf.

Sérstaka viðurkenningu fékk frístundamiðstöðin Tjörnin fyrir tvö verkefni. Annars vegar fyrir nýsköpunarverkefnið Tilfinningaspil sem Guðrún Kaldal vann ásamt listamanninum Jakobi Jakobssyni sem teiknaði spilin. Hins vegar fyrir verkefnið Unglingar gegn ofbeldi sem unnið var í samstarfi við Stígamót og Samfés.   

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir frístundastarf voru í formi viðurkenningarskjals og myndar eftir Einar Baldursson og afhenti Alexandra Briem, varaformaður ráðsins, verðlaunin.  Sjá myndband frá afhendingunni, þar sem verðlaunahafar segja einnig frá verkefnunum sem þeir voru að fá verðlaun fyrir.