Hús númer 10a við Vatnsstíg rifið

Framkvæmdir

Ónýtt hús við Vatnsstíg.

Nú er komið að því að rífa hús númer 10a við Vatnsstíg en niðurrifið er hluti af uppbyggingu Félagsstofnunar Stúdenta í Skuggahverfi.  Þarna eru fyrir stúdentaíbúðir sem kenndar eru við Skuggagarða og bætast við á reitnum íbúðir fyrir rúmlega hundrað námsmenn.

Úttekt hefur farið fram á húsinu og telst það ónýtt. Niðurrif hússins hefst síðar í mánuðinum og er framkvæmdin á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Verktaki verður ABL Tak. Á meðan á niðurrifinu stendur og hreinsun á lóð fer fram verður svæðið girt af og fyllsta öryggis gætt.

Verktími hefur verið áætlaður með hliðsjón af reynslu við sambærilegar framkvæmdir í miðborginni og er gert ráð fyrir því að framkvæmdartími verði á tímabilinu frá lok maí til júlí. Unnið verður á dagvinnutíma, það er frá klukkan 8-17 virka daga. Allt verður gert til þess að reyna að fyrirbyggja að tafir verði á verkinu og að raskið verði sem minnst fyrir íbúa og aðra hagaðila í nágrenninu. Einhverjar takmarkanir á aðgengi bifreiða eru mögulegar en aðgengi gangandi verður tryggt allan verktímann.

Óverulegur hávaði

Reykjavíkurborg gerir kröfu um flokkun efna af hálfu verktaka og er það sem ekki er endurnýtt fargað á öruggan hátt. Samkvæmt starfsleyfisskilyrðum skal haga niðurrifsstarfseminni þannig að hún valdi ekki nágrönnum í nærliggjandi húsum óþægindum vegna til dæmis fjúkandi úrgangs, lyktar, ryks hávaða eða annars ónæðis. Möguleiki er á því að hávaði fylgi niðurrifinu en hann ætti þó að vera óverulegur..

Skipulaginu á þessum reit var breytt á síðasta ári og var það unnið í samráði við Minjastofnun. Hús númer 10a verður rifið því það er talið ónýtt en til viðbótar verður húsið við Vatnsstíg 12 flutt á nýjan grunn við Vatnsstíg. Enn fremur hefur Félagsstofnun stúdenta sótt um starfsleyfi vegna niðurrifs á húsnæði við Lindargötu 44 sem tengist þessari uppbyggingu.

Með skipulaginu er heimilað að byggja stúdentaíbúðir fyrir 122 námsmenn en um er að ræða bæði íbúðir og einstaklingsherbergi. Uppbyggingin er við lykilás Borgarlínu og býður staðsetningin því upp á góða tengingu við háskólasvæðið í Vatnsmýri.