Hundaskítur óþriflegur og til ama

þriðjudagur, 13. mars 2012

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hefur undanfarið borist töluvert af kvörtunum vegna hundaskíts á gangstéttum og í almenningsgörðum.  Borgaryfirvöld vilja því hvetja hundaeigendur til að þrífa upp eftir hunda sína þegar þeir gera stykki sín á almannafæri enda er hundaskítur á götum, torgum og gangstéttum afar óþriflegur og hvimleiður fyrir samborgarana og gesti borgarinnar. Það að þrífa upp eftir hundinn sinn er mikilvægur þáttur í því að fegra borgina og halda henni hreinni.  

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur minnir jafnframt á að hundar skulu án undantekninga vera í taumi í borgarlandinu. Talsvert er kvartað yfir að hundaeigendur fari ekki eftir þessum reglum og að óþægindi, hræðsla og jafnvel hætta skapast af þeim sökum. Taumskylda er alls staðar nema þar sem lausaganga er sérstaklega leyfð og á svæðum fjarri mannabyggð.  Þess má geta að hægt er að fá í gæludýraverslunum tauma fyrir hunda sem í eru pokarúllur með pokum til að þrífa eftir hundana. Vert er að hafa í huga að fari hundaeigendur að reglum varðandi hundahald skapast mun jákvæðari hundamenning í borginni.