Hreystisvæði fagnað í Hæðargarði

Velferð Umhverfi

""

Fjölnota hreysti- og klifursvæði var tekið í notkun í dag en það var sett  upp eftir hugmyndaleit og kosningu meðal íbúa sem hluti af íbúalýðræðisverkefninu „Hverfið mitt“. Æfingartækin eru staðsett á opnu svæði við Hæðargarð 33 – 35.

Starfsfólk og notendur Félagsmiðstöðvarinnar við Hæðargarð verkefnisins stóðu fyrir nafnasamkeppni. Margir komu með tillögu að nafninu Hæðarvellir og fékk það einnig flest atkvæði.  Skilti með nafninu var afhjúpað í dag og á því var einnig vísa sem Jón Hallsson lét fylgja með sinni tillögu:

„Hæðarvellir“ heita skalt
hreyfing skapa mikla
verði úti verður kalt
vöðva má samt hnykla.

Á hreysti- og klifursvæðinu er tylft tækja ásamt leiðbeiningum um æfingar. Í tilefni dagsins prufukeyrðu íbúar í hverfinu tækin undir leiðsögn íþróttafræðings. Bryndís Hreiðarsdóttir verkefnisstjóri félagsstarfs fullorðinna í Bústaðahverfi og Háaleiti segir að vegna nálægðar við Félagsmiðstöðina að Hæðargarði 31 hafi verið  valin tæki sem henta eldra fólki. Bryndís stóð fyrir því að leiðbeiningar sem fylgdu tækjunum voru íslenskaðar og var það skilti einnig komið upp fyrir athöfnina í dag.

Fjölnota hreysti- og klifursvæðið er eins og áður segir hluti af hugmyndasamkeppni og kosningum íbúalýðræðisverkefnisins „Hverfið mitt“. Önnur verkefni sem íbúar í Háaleiti og Bústöðum kusu í fyrra til framkvæmda í ár eru:

  • Fjölga ruslatunnum í hverfinu
  • Fjölnota hreysti- og klifursvæði
  • Skapandi leiksvæði í Grundargerðisgarð
  • Lagfæra göngustíg við Ljósaland
  • Heilsuefling meðfram hitaveitustokknum
  • Útiæfingaráhöld og vatnspóst við Víkingsheimilið
  • Hjólabraut í hverfinu
  • Endurnýja teiga á frisbígolfvellinum í Fossvogi

Næst verður kosið um verkefni í haust - 31. október – 14. nóvember

Nánari upplýsingar