Hreystigarður við Bríetartún

Umhverfi Framkvæmdir

""

Víðs vegar í borginni eru ágæt leiksvæði sem gefa rými er til ýmiss konar samveru. Leikgarðurinn við Bríetartún eitt af þeim svæðum og hefur hann nú verið endurgerður. Svæðið var leikmynd í kvikmyndinni Benjamín Dúfa fyrir tuttugu árum.

Markmið leiksvæðastefnu Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að leikumhverfi borgarinnar uppfylli þarfir og óskir barna í Reykjavík, og ekki aðeins þeirra heldur einnig fullorðinna. Möguleikarnir eru margir í borginni þar sem hver garður hefur sína sérstöðu sem byggir á hefðum og sögu.

Í leiksvæðastefnunni kemur fram að endurskoða skuli mörg opin svæði í borginni og er leiksvæði sem myndað er af Hverfisgötu, Laugavegi, Rauðarárstíg og Skúlagötu eitt þeirra. Það var áður kallað Skúlagarður en nú má kalla svæðið heilsugarð eða hreystigarð.

Fjölbýlishúsin Skúlagötu 64-80

Þessi garður er markaður af fjölbýlishúsum en í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá 1927 komu fram hugmyndir um hagkvæmni þess að byggja hús í samfelldum röðum. Þess lags skipulagsgerð var nefnd blokkbygging eða randbyggð. Þetta húsnæði þótti tilvalið fyrir efnalítið fólk og urðu þau einskonar forveri blokkaríbúða sem síðar litu dagsins ljós. Fjölbýlishúsin við Skúlagötu og Rauðarárstíg eru byggð í anda skipulagsins frá 1927 um randbyggð hús.

Nefna má að húsin við Skúlagötu 64-80, nú Bríetartún, voru annar áfangi bæjaryfirvalda í viðleitni þeirra til að leysa úr húsnæðismálum bæjarins. Þau voru teiknuð af Einari Sveinssyni arkitekt en hann var brautryðjandi í hönnun fjölbýlishúsa með nútímasniði. Samtals voru 72 íbúðir í 9 sambyggingunni við Skúlagötu. Bygging húsanna hófst snemma árs 1945 en flutt var í fyrstu íbúðirnar tæpum tveimur árum síðar. Blokkin telst merkur áfangi í húsnæðissögu eftirstríðsáranna í Reykjavík og er nú hluti af heilsteyptri götumynd Skúlagötu. Hún er fjölbýlishús í fúnkísstíl með sterkum höfundareinkennum.

Benjamín Dúfa

Leiksvæðið sem þarna myndaðist varð víðfrægt sem söguvettvangur í kvikmynd Gísla Snæs Erlingssonar um Benjamín Dúfu sem gerð var eftir barnabók Friðriks Erlingssonar. Hún var endursýnd á RÚV sunnudaginn 16. ágúst sl. Skúlagata var kennd við Skúla Magnússon landfógeta. Gatan fékk nýlega nýtt nafn og heitir nú Bríetartún og er kennt við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Hreystigarðurinn við Bríetartún

Hreystigarðurinn við Bríetartún er opið leiksvæði, þar má finna hefðbundið leiksvæði fyrir börn, körfuboltavöll, kastala, rólu, gormatæki, klifurgrind, bekki, leiksvæði fyrir fullorðna og gróður. Ólafur Melsted landslagsarkitekt hannaði svæðið í samstarfi við Reykjavíkurborg.

„Sú hugmynd kom fram að leggja áherslu á leiksvæði fyrir fullorðna og af því tilefni skoðuðum við viðurkennd dönsk tæki og festum kaup á fjórum þeirra,“ segir Ólafur Ólafsson deildarstjóri opinna svæða hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og að ákveðið hafi verið að fjarlægja mölina og reisa þau á gervigrasi.

Staðsetningin þessara tækja fyrir fullorðna er valin út frá því að garðurinn er í almannaleið og stutt er á næsta kaffihús. Þannig geti fólk í heilsubótargöngu komið þarna við og gert ákveðnar æfingar og farið svo á kaffihús eða veitingastað í miðborginni og nágrenni á eftir. Frést  hefur af eldri borgurum sem koma við í hreystigarðinum til að gera æfingar á heilsubótargöngu sinni.

Framhald á hreystigörðum

Allar líkur eru á að framhald verði á uppsetningum á slíkum tækjum og mættu þau gjarnan vera í hverju hverfi, að mati Ólafs sem segir að svipuð tæki sé að finna meðfram stígum í Laugardalnum.

Líkamsræktartækin eiga að hjálpa fólki að efla styrk sinn, jafnvægi og liðleikni, þau eru af gerðinni NORWELL og eru fyrir þrettán ára og eldri. Einnig er hægt að fá tæki fyrir hreyfihamlaða og segir Ólafur að það standi til að  bæta við slíkum tækjum í borginni en um þessar mundir er verið að endurgera með ýmsum hætti níu leiksvæði út um alla borg og verkið heldur svo áfram árið 2016.

Húsakönnun Skúlagata 64-80

Leiksvæðastefna Reykjavíkurborgar