Hreinsun að ljúka við Ægisíðu

Íþróttir og útivist Umhverfi

""

Starfsmenn hverfastöðvar Reykjavíkurborgar hafa unnið að því undanfarna daga að raka saman og fjarlægja þara sem borist hefur upp á land við Ægisíðu.

Starfsmenn Veitna hófu hreinsun í fjörunni við Ægisíðu á sunnudaginn var og héldu áfram á mánudag en glöggir vegfarendur höfðu tekið eftir því að þar var nokkur skólpmengun, klósettpappír og annað miður heilsusamlegt og bent á það á samfélagsmiðlum. 

Ráðast þurfti í hreinsun á þarabunkum sem liggja jafnan á kambinum á Ægisíðuna eftir brim vetrarins. Brugðust starfsmenn hverfastöðvarinnar við Njarðargötu hratt við og hófu hreinsun í gær með aðstoð lítillar traktorsgröfu. Magnið var talsvert en starfsmennirnir rökuðu þaranum í hrúgur með hrífum sem grafan fjarlægði síðan og mokaði í gám.  

Þaranum verður síðan ekið til Sorpu sem mun urða hann.