Hönnunarnemar á Droplaugarstöðum

Velferð

""

Það lækkaði verulega meðalaldur þeirra sem eru á Droplaugarstöðum í gær þegar nemendur í hönnunarnámi í Listaháskóla Íslands mættu á hjúkrunarheimilið við Snorrabraut.

LHÍ vinnur verkefni í samstarfi við starfsfólk, íbúa og aðstandendur íbúa um hönnun og nýtingu opinna rýma Droplaugarstaða. Nemendur í samstarfi við þá sem best þekkja hjúkrunarheimilið ætla koma með hugmyndir að hönnun rýma hússins þannig að það skapi jákvæðar breytingar í samfélagi heimilisins.

Yfir 50 nemendur taka þátt í verkefninu og vinna í sex hópum. Tveir hópar vinna með fulltrúa frá starfsfólki, tveir með fulltrúa aðstandenda og tveir hópar vinna með fulltrúa íbúa. Með því fá nemendur sýn þeirra sem standa heimilinu næst.

Með verkefninu er leitast við að styrkja samstarf milli ólíkra hönnunargreina innan skólans, skapa ný tengslanet með aðilum í nærumhverfi með það að leiðarljósi að skapa jákvæðar samfélagsbreytingar. Verkefnið kallast Saman 2019 eða vettvangur fyrir samfélagslega/borgaralega menntun.

Þetta er þverfaglegt hönnunarnámskeið kennt við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Með þessu námskeiði er leitast við að auðga samstarf hönnunargreina og aðila í nærumhverfi nemenda þar sem markmiðið er að nýta hönnun sem tæki til félagslegra breytinga.

Námskeiðið stendur í sex vikur eða frá 1. apríl 2019 til 9. maí 2019. Nemendur eru allir á öðru ári og koma úr vöruhönnun, fatahönnun, arkitektúr og grafískri hönnun auk fimm skiptinema. Þau munu vinna í samstarfi við Droplaugarstaði og kanna viðfangsefni þess að eldast með augum notenda hússins.

Kennarar LHÍ á námskeiðinu eru Massimo Santanicchia, Búi Bjarmar Aðalsteinsson, Eva María Árnadóttir, Phoebe Anna Jenkins, Sinéad Aine McCarron og Julia Hechtman. Starfsmenn Droplaugarstaða sem halda utan um verkefnið eru Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður, Inga Kolbrún Hjartardóttir og Gréta Konráðsdóttir. Fulltrúar Droplaugarstaða í hópum eru þau Guðbjörg Axelsdóttir og Hallgrímur Hallgrímsson fyrir hönd íbúa, Haukur Filippusson og Ingibjörg Petra Guðmundsdóttir fyrir hönd aðstandenda og Birna Pála Rúnarsdóttir og Nina Grace fyrir hönd starfsfólks.

Það er von Droplaugarstaða að á meðan á verkefninu stendur aukist líf í húsinu og að frá nemendum LHÍ komi góðar hugmyndir að fjölbreyttari nýtingu almenningsrýma hússins. Óskin er að það skapist góð stemning í rýminu og fylgst verður með lokaafurð samstarfs listnema og Droplaugarstaða í maí nk.