Höfði og Harpa í bláum lit Sameinuðu Þjóðanna

Stjórnsýsla

""

Höfði, Harpa, Háskóli Íslands, Dómkirkjan í Reykjavík og Akureyrarkirkja verða lýst bláa lit Sameinuðu þjóðanna á laugardag í tilefni af  75 ára afmæli alþjóðasamtakanna.

Íslensku byggingarnar eru í hópi fleiri en tvö hundruð bygginga og mannvirkja um alla Evrópu sem munu minnast afmælisins með þessum hætti.

UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, á frumkvæðið að átakinu Turn Europe UN Blue en á 24.október verða 75 ár liðin frá því stofnsáttmáli samtakanna gekk formlega í gildi árið 1945.

Af öðrum þátttakendum má nefna brúna yfir Eyrarsund, dómkirkjuna í Stokkhólmi, Ráðhúsið og FN-byen í Kaupmannahöfn og háskólann í Tromsö svo dæmi séu tekin frá Norðurlöndum. Þá má nefna helstu byggingar Evrópusambandsins í Brussel, Þjóðahöllinna í Genf og Friðarhöllina í Haag, ráðhús Brussel, Madridar og Bonn, Belem-turninn í Lissabon, Stormont kastala í Belfast, Dyflinnarkastala og dómshús Lyon.

Að varpa bláa litnum á byggingar og mannvirki er táknræn aðgerð og stuðningur við grundvallarhugsjónir Sameinuðu þjóðanna um frið, sjálfbæra þróun, mannréttindi og fjölþjóðlega samvinnu á óvissum tímum.

„Við stöndum andspænis tröllauknum áskorunum,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Við getum sigrast á þeim með samstöðu og samvinnu um allan heim. Um það snúast Sameinuðu þjóðirnar. Á þessu afmæli bið ég fólk hvarvetna um að taka höndum saman. Sameinuðu þjóðirnar standa ekki aðeins með ykkur. Þær tilheyra ykkur og þær eru þið samanber upphafsorð stofnsáttmálans: „Vér hinar Sameinuðu þjóðir.“

Sjá einnig ávarp António Guterres í tilefni af 75 ára afmælisins hér.

#EuropeTurnsUNBlue #UN75