Hlíðaskóli hreppti Skrekksstyttuna

Skóli og frístund

""

Mikil gleði ríkti meðal nemenda í Hlíðaskóla í gærkvöldi þegar atriði þeirra á lokahátíð Skrekks hreppti sigurlaunin, sjálfa Skrekksstyttuna. 

Siguratriðið úr Hlíðaskóla, Þið eruð ekki ein, fjallaði um kynsegin og hinsegin tilfinningar unglinga og viðbrögð samfélagsins við einstaklingum sem skilgreina sig utan tvíhyggju kynjakerfisins. Nemendur tóku stoltir og glaðir við Skrekksstyttunni úr hendi Dags borgarstjóra og óskum við þeim til hamingju með þetta frábæra atriði og frammistöðuna.

Átta skólar kepptu til úrslita á lokakvöldinu Árbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Hagaskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Laugalækjarskóli, Réttarholtsskóli og Seljaskóli. Vel á þriðja hundrað unglingar stigu á svið á lokahátíðinni þar sem Skrekkur var haldinn í 30. sinn. Óhætt er að segja að allir hafi staðið sig með stökustu prýði. 

Dómnefnd skipuðu stjórnendur menningarhúsa í borginni; Borgarleikhússins, Þjóðleikhússins, Hörpu, Íslenska dansflokksins og ungmenni úr ungmennaráði Samfés.

Sjá siguratriðið.