Hlaupagikkur og hafsjór af fróðleik

Mannlíf

""

Þorbjörgu Karlsdóttur, leikskólakennara og bókasafnsfræðingi á Borgarbókasafninu í Grófinni, er ekki fisjað saman. Hún æfir hlaup, spilar á gítar og er hafsjór af fróðleik um barnamenningu og barnabókmenntir; „Nú er ég með söngstund fyrir börnin á hverjum fimmtudegi klukkan ellefu hérna á bókasafninu,“ segir hún kát þar sem hún stendur vaktina í afgreiðslunni.
 

Í mörg ár hefur Þorbjörg verið gildur limur í hinum annálaða Hlaupahópi Lýðveldisins sem hleypur frá Vesturbæjarlaug og hún hefur tekið þátt í bæði borgarhlaupum og fjallahlaupum. Síðustu mánuði hefur bakið hins vegar sett stopp á götuhlaupin en með hækkandi sól stefnir hún til fjalla, gangandi og hlaupandi.

Árum saman hafa barnabókmenntir og barnastarf verið helstu viðfangsefni Þorbjargar á bókasafninu. Þar hefur hún viðað að sér dýrmætum fróðleik um barnabókmenntir, enda hafa háskólanemar og fræðimenn oft leitað til hennar við rannsóknir sínar á barnasögum. Og hún er stolt af Bókaverðlaunum barnanna sem hún stofnaði til fyrir margt löngu, en það eru einu verðlaun landsins þar sem börn velja bestu bækurnar.
Þorbjörg þjónar líka eldri notendum bókasafnsins. Á hverjum fimmtudegi milli kl. 16-18 aðstoðar hún þá sem eiga í erfiðleikum með tölvutæknina og hjálpar þeim að sækja sér rafræna þjónustu, panta hótel og flug eða nýta tölvuna betur í samskiptum.„Mér finnst það gefandi þótt ég sé enginn tæknigúrú þannig séð. En ég get leyst flest vandmál því að tölvutæknin hefur alltaf verið stór hluti af starf mínu hér í bókasafninu.„