Hjólaumferð tvöfaldaðist í vikunni | Reykjavíkurborg

Hjólaumferð tvöfaldaðist í vikunni

miðvikudagur, 28. febrúar 2018

Umferð á reiðhjólum jókst áberandi mikið í vikunni í Reykjavík. Hjólateljarar í Nauthólsvík og á Geirsnefni sýna tvöföldun umferðar eftir að götur og stígar urðu auðir.

  • Hjólandi fjölgar
    Hjólandi fjölgar
  • Hjólandi fjölgar kemur fram í Borgarvefsjá.
    Hjólandi fjölgar kemur fram í Borgarvefsjá.

Mánudaginn 26. febrúar mældust 211 reiðhjól á stígnum í Nauthólsvík en daginn eftir voru 411 á reiðhjólum. Tvöföldun varð einnig á Geirsnefi, umferðin fór úr 93 hjólum í 187 og aukningin í Elliðaárdal var úr 105 í 172 hjól 27. febrúar.

Á liðnu ári voru settir upp þessir þrír teljarar sem mæla fjölda ferða hjólandi og gangandi á ofantöldum stöðum. Áætlað er að setja upp fleiri víða um borgina og safna gögnum, meðal annars um vaxandi samgönguhjólreiðar. 

Hjólreiðar og aðrir vistvænir ferðamátar hafa án vafa góð áhrif á umhverfi, lýð­heilsu og lífs­gæði og stuðla að betri borg. Niðurstöður talninga eru jákvæðar og í samræmi við stefnu Reykjavíkur­borgar um að efla vistvæna ferða­máta en það er megin­markmið Hjól­reiða­áætlunar 2015–2020 að auka hlut­deild hjól­reiða í öllum ferðum í borginni.

Borgarvefjsjá

Hægt er að sjá niðurstöðurnar í borgarvefsjá á vef Reykjavíkurborgar. Teljarar fyrir hjólandi og gangandi eru þar valkostur undir liðnum umferð. Með því að velja „Meira“ takkann og smella á einhvern teljarann þá er hægt að sjá hversu margir gangandi og hjólandi hafa farið þar um. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig í hyggju að setja upp teljara á hjólandi og gangandi á helstu stíga í samvinnu við Vegagerðina.

Tengill

Borgarvefsjá - teljarar