Hjólabraut í Úlfarsfelli fyrir byrjendur og lengra komin

Betri hverfi Heilsa

Fjallahjólreiðamanneskja hjólar í æfingabrautinni í Úlfarsfelli.

Mikil ásókn hefur verið í fjallahjólabraut sem opnuð var í Úlfarsfelli í fyrra. Þangað mætir gallhart fjallahjólafólk í bland við byrjendur og þau sem eru einfaldlega forvitin að prófa þetta spennandi sport, enda er brautin opin öllum.

Æfingahjólabrautin í Úlfarsfelli varð fyrir valinu í verkefninu Hverfið mitt, en það er lýðræðisverkefni sem fram fer í borginni á tveggja ára fresti. Um er að ræða braut sem smíðuð var með flæði í huga, en mörg þekkja svokallaða downhill-braut (fjallahjólabrun-braut) sem staðsett er annars staðar í Úlfarsfelli. Nýja brautin er tæpur kílómetri á lengd og með um 100 metra lækkun. Franz Friðriksson, Andri Steinar Jónsson og Stefán Örn Stefánsson lögðu brautina ásamt góðum félögum úr Tindi hjólreiðafélagi, en þeir félagar sáu bæði um hönnun og framkvæmd. Þá sá Verkfræðistofa Reykjavíkur um framkvæmdareftirlit.

Fjallahjólreiðafólk leikur listir sínar í hjólabrautinni í Úlfarsfelli.

Góð braut til að taka framförum í 

„Við í stjórn Tinds fengum beiðni frá Reykjavíkurborg um að gera braut í Úlfarsfelli og við tókum þetta verkefni að okkur fyrir hönd félagsins,“ segir Franz. „Það er heilmikil vinna að leggja svona braut. Þessi er aðeins með um hundrað metra lækkun og það þurfti mikla útsjónarsemi til að nýta alla hæðarmetrana, en það er hægt að fá mikið fyrir þá ef þetta er vel úthugsað. Á Íslandi búum við við mikla rigningu svo við lögðum líka mikla vinnu í að veita vatninu úr hjólafarveginum. Þetta tókst vel og brautin stóð fyrsta veturinn af sér með prýði.“ 

Þessi er aðeins með um hundrað metra lækkun og það þurfti mikla útsjónarsemi til að nýta alla hæðarmetrana, en það er hægt að fá mikið fyrir þá ef þetta er vel úthugsað.

Brautin er öllum opin og Franz segir hana lagða með það í huga. „Við gættum þess frá byrjun að hafa brautina þannig að hún yrði flestum fjallahjólurum fær og nothæf fyrir alla, byrjendur jafnt sem lengra komna,“ segir hann. „Þetta er mjög góð braut til að ná framförum í því það er hægt að taka ýmsa kafla í henni á miserfiðan hátt, sem sagt hægt að velja sér miserfiðar línur í gegnum brautina.“

Ungur fjallahjólreiðamaður leikur listir sínar og hoppar fram af steini á æfingabrautinni í Úlfarsfelli.

Jákvæð uppbygging í vaxandi íþrótt 

Fjallahjólamenning hefur þróast hratt hér á landi og áhuginn aukist gríðarlega síðustu ár. „Þessi uppbygging er mjög jákvæð af því það er vöntun á svæðum bæði til æfinga og leiks. Það var dálítið högg fyrir okkur hjólreiðafólk þegar ljóst varð að hjólagarðurinn í Skálafelli yrði ekki opnaður í sumar. Leiðir eru oft samnýttar með göngufólki og uppbygging eins og þessi í Úlfarsfelli er mjög jákvæð þróun. Það ríkir mikil ánægja með brautina og ásókn í hana hefur verið stöðug. Ég er mikið spurður hvenær verður byggt meira,“ bætir hann við og hlær. „Félögin hafa verið með æfingar þarna en almenningur mætir líka. Við höfum séð fólk á öllum aldri koma og eiga saman góða stund í brautinni.“ 

En hverju þarf að huga að ef einhver hyggjast prófa braut sem þessa í fyrsta sinn? „Þá ætti alltaf að byrja á að skoða brautina vel. Ganga um hana, skoða allt, prófa kannski staka kafla og prófa svo brautina í heilu lagi ef viðkomandi vill. Það er mikilvægt að fara ekki framúr sjálfum sér og eigin getu.“ 

Við höfum séð fólk á öllum aldri koma og eiga saman góða stund í brautinni.

Fjallahjólreiðamanneskja hjólar í æfingabrautinni í Úlfarsfelli.

Ungmenni hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur leyfðu okkur að fylgjast með æfingu og taka myndir af þeim leika listir sínar í brautinni og þökkum við kærlega fyrir það.

Uppstillt hópmynd af ungmennum úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur eftir æfingu á brautinni í Úlfarsfelli.

Efri röð frá vinstri: Einar Valur Bjarnason, Óskar Óli Valgeirsson, Benedikt Björgvinsson, Brynjar Logi Friðriksson, Dagur Hafsteinsson, Daníel Smári Arnþórsson, Alexander Þór Stefánsson og Bergþór Páll Hafþórsson. Neðri röð frá vinstri: Ísak Hrafn Freysson, Þórdís Einarsdóttir (formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur) og Tinna Sigfinnsdóttir. Á myndina vantar Lindu Mjöll Guðmundsdóttur og Breka Gunnarsson sem einnig léku listir sínar fyrir ljósmyndara í brautinni.