Hinsegin fólk og heimilisofbeldi

Mannréttindi Mannlíf

""

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur gefið út fræðsluefnið Saman gegn ofbeldi – upplýsingabækling um hinsegin fólk og ofbeldi.

Tilgangur útgáfunnar á Saman gegn ofbeldi - upplýsingabæklingur um hinsegin fólk og ofbeldi er að beina sjónum að og mæta þörfum hinsegin fólks sem verður fyrir heimilisofbeldi. Hann byggir á fimm bæklingum sem hafa verið gefnir út um hinsegin fólk og heimilisofbeldi, en þeir fjalla sérstaklega um lesbíur, homma, tvíkynhneigðar konur, tvíkynhneigða karla og trans fólk.Bæklingarnir hafa verið sameinaðir í einn bækling sem nær yfir þessa hópa og verður hugtakið hinsegin fólk notað yfir þá. Stundum eru þó tekin dæmi um heimilisofbeldi sem eiga við um einstaka hópa innan hinsegin samfélagsins.

Efni bæklingsins hefur verið lagað að íslenskum aðstæðum og að verkefninu Saman gegn ofbeldi og fjallar því sérstaklega um þau úrræði og verkferla sem eru til staðar í Reykjavík. Í bæklingnum er talað um gerendur og brotaþola, en gerendur og brotaþolar geta verið af öllum kynjum og verið í ólíkum samböndum og tengslum. Upplýsingarnar sem koma fram nýtast þó vonandi öllum hópum hinsegin samfélagsins og þeim sem vinna við að sporna við heimilisofbeldi.

Bæklingur þessi byggir á bæklingum Rise samtakanna í Bretlandi sem voru skrifaðir af Brighton og Hove LGBT DV & A Working Group og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir leyfið til að nýta efnið. Útgáfa þessa bæklings er hluti af verkefninu Saman gegn ofbeldi en að því standa Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar stýrir verkefninu og ber ábyrgð á þessari útgáfu.

Til að fá frekari upplýsingar um málefni hinsegin fólks er hægt að hafa samband við sérfræðing á mannréttinda og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar eða við Samtökin ’78 sem er félag hinsegin fólks á Íslandi.