Hinsegin dagar ná hámarki á laugardag

Menning og listir Mannréttindi

""

-Gleðiganga frá Hallgrímskirkju og útitónleikar í Hljómskálagarði. Búist er við þúsundum gesta. Reykjavíkurborg hvetur almenning til að nýta sér almenningssamgöngur eða koma gangandi eða hjólandi í miðborgina til að sækja hátíðahöldin.  

- Fjöldi hljómsveita og tónlistarfólks á tónleikum Hinsegin daga

- Aldrei hafa fleiri atriði verið skráð til þátttöku í gleðigöngunni

Hinsegin dagar, sem staðið hafa yfir í Reykjavík frá 8. ágúst, ná hámarki með gleðigöngu og útitónleikum á laugardag. 

Dagskráin í miðborginni hefst með upphitun fyrir gleðigönguna sem NOVA og Hinsegin dagar standa fyrir á Klapparstíg á milli kl. 12 og 14.

Gleðigangan leggur svo upp frá Hallgrímskirkju kl. 14. Að þessu sinni verður gengið niður Skólavörðustíg og Bankastræti, suður Lækjargötu, Fríkirkjuveg og Sóleyjargötu að Hljómskálagarðinum. Skipuleggjendur búast við að gleðigangan verði hin glæsilegasta en aldrei hafa fleiri atriði skráð til þátttöku.

Að gleðigöngu lokinni bjóða Hinsegin dagar til útitónleika í Hljómskálagarðinum. Gera má ráð fyrir að tónleikarnir hefjist um kl. 15:30 og standi í um eina og hálfa klukkustund. Dagskrá tónleikanna er glæsileg að vanda en í ár munu Páll Óskar, Aaron Ísak, Daði Freyr, Vök, Heklina, Beta og Una Stef stíga á svið. Kynnir tónleikanna verður útvarpsmaðurinn og plötusnúðurinn Siggi Gunnars. Það má því búast við mikilli stemningu og miklu magni af konfettí í miðborginni á laugardag.

Nokkuð verður um götulokanir í miðborginni í tengslum við hátíðahöld Hinsegin daga líkt og sjá má á götulokanakorti. Gestir eru því hvattir til að nýta almenningssamgöngur en einnig má benda á bílastæðahúsin í miðborginni og bílastæði við Háskóla Íslands.