Hin villta Viðey næst á dagskrá

Umhverfi

""

Hin villta Viðey er yfirskrift göngu sunnudagsins 8. júlí kl. 13:15. Siglt verður stundvíslega frá Skarfabakka kl. 13:15. Um liðna helgi mættu 25 manns í fuglaskoðun við Elliðavatn og sáu m.a. flórgoða sitja á. 

Snorri Sigurðsson, líffræðingur mun leiða göngu um Viðey og fræđa göngugarpa um gróðurfar og dýralíf eyjunnar. Snorri er líffræðingur hjá Reykjavíkurborg og hefur víðtæka þekkingu á lífríki borgarlandsins. Viðey er gróðursæl útivistarparadís og var áður ein besta bújörð landsins. Þar verpa alls um 30 fuglategundir og er æðarfugl algengasti fugl eyjunnar. Þátttakendur eru beðnir um að koma klæddir eftir veðri og í góðum skóm.
Siglt verður stundvíslega frá Skarfabakka kl. 13:15. Þeir sem vilja fá sér léttan hádegisverð í Viðeyjarstofu fyrir gönguna er bent á að taka ferjuna kl. 12:15. 
Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.550 kr. fyrir fullorðna, 1.450 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 775 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og af veitingum í Viðeyjarstofu.

Fuglaskoðun um liðna helgi.

Um það bil 25 áhugasamir mættu í fuglaskoðun við Elliðavatn um liðna helgi. Veður var stillt og milt en nokkuð þungbúið. Fuglalífið var auðugt og sáust vel á annan tug fuglategunda m.a. fjöldi óðinshana, himbrimi og flórgoðapar á hreiðri. Sagt var frá varpi flórgoðans í sjónvarpsfréttum RÚV. 

Njótum náttúrunnar í sumar

Melda sig á viðburðinn

Myndband úr fuglaskoðun