„Heimsending er enginn heimsendir“

Covid-19 Heilbrigðiseftirlit

""

Í kjölfar COVID-19 og samkomubanns hafa veitingastaðir brugðið á það ráð að bjóða upp á heimsendingaþjónustu og/eða og heimtöku „take-away“ á veitingum í síauknum mæli. Eins og gefur að skilja kallar þessi aukna þjónusta við viðskiptavini á nýjar áskoranir fyrir fyrirtækin.

Huga þarf til að mynda vel að hitastigi og umbúðum en borið hefur á því að matur komi kaldur til viðskiptavina. Einnig hafa borist ábendingar um að veitingar séu heimsendar með einkabílum, en slíkt er ekki heimilt. Í einkabifreiðum geta hafa verið dýr, veik börn og jafnvel fólk í sóttkví. Það flokkast því undir almannavarnir að hafa þessa hluti í lagi.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vill því að gefnu tilefni koma áríðandi upplýsingum til matvælafyrirtækja til að tryggja matvælaöryggi.

Tryggja skal öryggi

Þau fyrirtæki sem ætla að bjóða upp á heimsendingaþjónustu verða að tryggja að flutningsbúnaður sé hreinn og taka skal fram að ekki er leyfilegt að nota einkabíla fyrir heimsendingaþjónustu.  Matvæli þurfa að vera varin gegn mengun.

Hitastig mikilvægt

Til að draga úr líkum á matarsýkingum verða fyrirtækin að hafa stjórn á hitastigi matvælanna þangað til þau eru afhent til viðskipavina. Fyrirtækin verða því að hafa þar til gerðan búnað sem tryggir að hita- eða kælikeðjan rofni ekki þegar veitingarnar fara úr húsi. 

· Heitum mat skal halda við 60°C, kælivörum við 0-4°C

· Frystivörur við -18°C eða lægra.

Handþvottur og –spritta fyrir afhendingu

Að lokum er minnt á mikilvægi handþvottar, en það á einnig við um sendla í heimsendingaþjónustu. Nauðsynlegt er að handspritt sé til staðar í öllum flutningstækjum svo sendlar geti sprittað hendur á milli viðskiptavina.

Finna má ítarlegri leiðbeiningar varðandi heimsendingaþjónustu á upplýsingasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna COVID-19. Beinn hlekkur er eftirfarandi: https://reykjavik.is/frettir/leidbeiningar-fyrir-heimsendingarthjonustu-med-matvaeli

Auk þess er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á Facebook, en þar er ýmsum ráðum og fróðleik deilt með fylgjendum:  https://www.facebook.com/heilbrigdiseftirlitrvk

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur