Heimsækjum félagsmiðstöðina 13. nóvember

Skóli og frístund Mannlíf

""

Miðvikudaginn 13. nóvember verður hinn árlegi félagsmiðstöðvadagur haldinn hátíðlegur í borginni. Þá gefst gestum og gangandi tækifæri til þess að kynnast uppbyggilegu frístundastarfi með börnum og unglingum.   

Markmið félagsmiðstöðvadagsins er að vekja athygli á metnaðarfullu frístundastarfi með börnum og unglingum og bjóða allar félagsmiðstöðvarnar upp á skemmtilega dagskrá í tilefni dagsins. Bæði verður hægt að kynna sér hefðbundin viðfangsefni í starfi félagsmiðstöðvanna og sérstakar uppákomur sem tileinkaðar eru deginum. Dæmi um það sem verður á dagskrá félagsmiðstöðvanna á miðvikudaginn; 

Í 100og1 í Miðborginni gefst tækifæri til að skoða þær breytingar sem búið er að gera á aðstöðu félagsmiðstöðvarinnar en Spennistöðin hefur aldeilis tekið stakkaskiptum undanfarið ár og fengið fallega veggskreytingu. Þar geta gestir m.a. skellt sér í Kahoot, Nintendo Switch eða gripið í alls konar spil.

Í Laugó í Laugardalnum verður boðið upp á ljósmyndasýningu og gestir geta tekið þátt í lan-klúbbi, blindrabolta, pílumóti, foreldra-„gang-beast“ -móti og notið léttra veitinga.

Í Hofinu í Vesturbænum geta gestir skellt sér í dans (Just Dance), spilað, spjallað og gætt sér á kökum og kaffi. 

Í Sigyn í Grafarvogi geta gestir tekið þátt í smiðjuvinnu og lært að búa til vinabönd, kleinuhringi eða perla merki/lógó Sigynjar. Einnig verður farið í spurningakeppnina „Allt eða ekkert“ og sýnd myndbönd frá skemmtilegum viðburðum í starfinu.

Bakkinn í Breiðholti býður gestum að taka þátt í bingó, fara í pool, borðtennis, Nintendo, foozball og margt fleira skemmtilegt.

Í Holtinu í Norðlingaholti munu unglingar kenna gestum dans og boðið verður upp á lifandi tónlist. Þá má skella sér í pógó-keppni sem er sívinsæll leikur í félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Höllin í Grafarvogi ætlar að bjóða gestum að kynna sér starfið, búa til brjóstsykur og mála bolla. Auk þess verður skorað á foreldra að leika borðtennis og Playstation.

Dagskrá félagsmiðstöðvadagsins og opnunartíma allra félagsmiðstöðva í Reykjavík og heimilisföng má finna á heimasíðum þeirra og á samfélagsmiðlum.

Yfirlit yfir félagsmiðstöðvar í Reykjavík 

Félagsmiðstöðvadagurinn er haldinn á öllu landinu fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005.