Heimagisting er áfram starfsleyfisskyld

Heilbrigðiseftirlit

""

Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík vill árétta að heimagisting gegn endurgjaldi er starfsleyfisskyld starfsemi eins og áður.

Um áramótin tóku gildi lög nr. 67/2016  um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Með breytingu á lögum er einstaklingum gert heimilt að skrá heimagistingu gegn endurgjaldi þar sem þeir eru skráðir með lögheimili eða í annarri fasteign sem þeir hafa til persónulegra nota og er í þeirra eigu frá og með 1. janúar 2017. Einstaklingum verður heimilt að leigja út viðkomandi fasteignir að hámarki 90 daga samanlagt á hverju almanaksári og mega tekjur af leigu nema að hámarki 2. milljónum króna yfir hvert almanaksár.

Einstaklingur sem vill bjóða upp á upp á heimagistingu þarf að tilkynna sýslumanni að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Verður það gert rafrænt á heimasíðu sýslumanns: www.heimagisting.is

Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík vill árétta að slík heimagisting er starfsleyfisskyld starfsemi eins og áður skv. 4 .gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og skulu einstaklingar sem ætla að skrá heimagistingu hjá sýslumanni sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis. Hægt er að sækja starfsleyfisumsóknareyðublað fyrir heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík á heimasíðu Reykjavíkurborgar á www.reykjavik.is. Umsækjandi borgar fyrir eftirlit og 12 ára starfsleyfi skv. gjaldskrá heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík.

Við skráningu heimagistingar hjá sýslumanni er sú krafa gerð að aðilar staðfesti við rafræna skráningu að viðkomandi húsnæði uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, að húsnæðið sé samþykkt af viðkomandi embætti sveitarfélaga og að fyrir liggi starfsleyfi heilbrigðiseftirlits.