Heil brú sameinar íbúa í Spennustöðinni | Reykjavíkurborg

Heil brú sameinar íbúa í Spennustöðinni

fimmtudagur, 14. september 2017

Íbúasamtökin Heil brú standa í vetur fyrir framandi og skemmtilegum uppákomum í Spennustöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar við Austurbæjarskóla.

  • Myndin sýnir Spennustöðina við Austurbæjarskóla.
    Gamla spennustöðin við Austurbæjarskóla er nú menningarmiðstöð fyrir alla íbúa miðborgarinnar.
  • Margrét Erla Maack leiðir Bollywood dansa.
    Margrét Erla Maack leiðir Bollywood dansa.
  • Veska Jónsdóttir sýnir ásamt fleirum Balkandansa.
    Veska Jónsdóttir mun kenna þátttakendum Balkandansa.

Laugardaginn, 16. september kl. 13, bjóða Íbúasamtök Miðborgar og Kramhúsið upp í dans í Spennistöðinni.  Kramhúsið gefur öllum íbúum hverfisins tækifæri til að prófa dansa frá ólíkum hornum heimsins.  Natasha Royal kennir breikdans, Erna Guðrún Fritzdóttir skapandi dans, Margrét Erla Maack Bollywood dansa og Veska Jónsdóttir Balkandansa.

Danssmiðja þessi er liður í verkefni Íbúasamtakanna Heil brú og er aðgangur ókeypis og heimill fólki á öllum aldri. Danssmiðjan er gráupplagt tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að taka snúning saman.

Heil brú stendur fyrir málþingi og smiðjum í Spennistöðinni en Reykjavíkurborg styrkir verkefnið sem hófst haustið 2016. Heilli brú var hleypt af stokkunum til að tengja saman alla notendur Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstöðvar miðborgarinnar, og eru einkunnarorð starfsins, sköpum, ræðum og leikum okkur saman.

Markmið verkefnisins er að bæta hverfisandann og samheldnina í hverfinu og öllum íbúum í miðbænum er velkomið að taka þátt í smiðjum og málþingum Spennustöðvarinnar.

Í vetur stendur m.a. til að halda örnámskeið í sirkuslistum og föndur- og tónlistarsmiðjur. Málþing munu m.a. fjalla um  fegurð í byggingarlist og skipulagi og sambýlið við ferðaþjónustuna.

Athugið að dagskrá vetrarins er ekki fullmótuð og við auglýsum eftir hugmyndum að smiðju og/eða málþingi. Sendið okkur póst á midbaerinn@midbaerin.is