Heiðurstengd átök | Reykjavíkurborg

Heiðurstengd átök

miðvikudagur, 21. nóvember 2018

Fjallað var um ofbeldi eða heiðurstengd átök og ýmsar birtingamyndir þeirra á ráðstefnu sem haldin var á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Samtaka um kvennaathvarf í dag.

 • Fjölmenni var á ráðstefnu um ofbeldi í fjölskyldum og heiðurstengd átök.
  Fjölmenni var á ráðstefnu um ofbeldi í fjölskyldum og heiðurstengd átök.
 • Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis
  Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis
 • Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra kvennathvarfsins og Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkur.
  Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra kvennathvarfsins og Edda Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkur en þær höfðu veg og vanda af ráðstefnunni.
 • það var mikill hugur þátttakendum á ráðstefnunni að læra meira um heiðurstengd átök.
  það var mikill hugur þátttakendum á ráðstefnunni að læra meira um heiðurstengd átök til að vera betur í stakk búin að veita þolendum hér á landi aðstoð

Um dagskrá fundarins sáu Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis en þær starfa í þekkingar- og fræðsluteymi í Noregi um þvinguð hjónabönd og limlestingar á kynfærum kvenna (Bufdir og Kompetanseteam mot tvangsekteskap og kjönnslemlestelse).

Þær Farrah og Katarina kynntu starfið og sögðu frá stöðu mála í Noregi.  Á fyrstu árum teymisins unnu þau að mestu með þolendum í heiðurstengdum átökum en með meiri þekkingu á málaflokknum hafa augu sérfræðinga í Noregi beinst meira að fræðslu og forvörnum en einstökum málum. 

Með því að vinna með nærsamfélaginu og ólíkum þjóðarhópum og stórfjölskyldum næst meiri árangur í að breyta viðhorfum fólks.  Athygli er beint að innrætingu í uppeldi sem dregur úr ofbeldi í nánum samböndum og hvetur til jafnrétti kynjanna og almennra mannréttinda. Ekki er litið á ungt fólk sem fórnarlömb heldur fulltrúa sem eru að breyta menningu og gildum í nærsamfélaginu.

Í Noregi eru starfandi í nokkrum grunn- og framhaldsskólum sérstakir minnihlutaráðgjafar sem sinna sértaklega börnum og ungmennum af erlendum uppruna. Reynslan hefur sýnt að það eru mörg ungmenni sem leita til þeirra þegar þeir hafa áhyggjur af því að til standi mögulega til að senda þau heim í heimalandið til að giftast samlöndum gegn vilja þeirra.

Frá því að sérstakt teymi í kringum heiðurstengd átök og ofbeldi í fjölskyldum var stofnað í Noregi starfa minnihlutafulltrúar í nærsamfélaginu og í grunn og framhaldsskólum,  þjónustumiðstöðvar í hverfum hafa fengið aukinn stuðning og  veittir hafa verið styrkir til rannsókna.  Að lokum má nefna stuðning frá ríkinu í málaflokknum til frjálsra félagasamtaka og ólíkra þjóðarhópa sem nemur 10 milljónum norskra króna á ári.

Birtingamyndir heiðurstengdra átaka geta verið margvíslegar, svo sem þrýstingur, ógnanir, þvinganir og ofbeldi, oft af hálfu fjölskyldumeðlima og/eða samlanda. Algengast er að konur og börn frá löndum þar sem heiður fjölskyldunnar er tengdur hegðun fjölskyldumeðlima eða hafður í hávegum séu beitt ofbeldi af þessu tagi til að tryggja að viðkomandi hegði sér í samræmi við hefðir fjölskyldunnar og nærsamfélagsins. Það hefur einnig færst í vöxt að ungir karlmenn séu meðal þolenda.

Lögð er áhersla á að styðja og styrkja börn og ungmenni með þjónustu og stuðningi í nærsamfélagsinu, tryggja þeim lögfræðiaðstoð og einnig beina spjótum að þeim aðilum sem standa að stofnun þvingaðra hjónabanda, hvetja til limlestinga á kynfærum kvenna og stofna til heiðurstengda átaka í nærsamfélaginu.

Lítið hefur verið rætt um heiðurstengd átök hér á landi en að sögn framkvæmdastýru kvennaathvarfsins, Sigþrúðar Guðmundsdóttur, hafa konur leitað til athvarfsins sem eru að flýja heiðurstengd átök.

Þegar litið er til reynslu sérfræðiteymisins í Noregi ætti að vera ljóst að best er að byrgja brunninn áður en við föllum í hann og því ekki seinna vænna að huga að fræðslu- og forvarnarstarfi í skólum og hjá ólíkum þjóðarhópum borgarinnar.  það var mikill hugur í þátttakendum á ráðstefnunni að læra meira um heiðurstengd átök til að vera betur í stakk búin að veita þolendum hér á landi aðstoð. Ráðstefnan var, eins og áður er nefnt, samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Kvennaathvarfsins.