Hátt í 90 tungumál töluð í skóla- og frístundastarfi

""

Í skóla- og frístundastarfi borgarinnar eru töluð hátt í 90 tungumál af börnum, foreldrum og starfsfólki sem þar starfar. Fimmtudaginn 21. febrúar nk. verður alþjóðlegur móðurmálsdagur UNESCO haldinn hátíðlegur á Íslandi og víða um heim. Áherslur UNESCO í  ár eru á tungumál frumbyggja.

Að því tilefni fögnum við þeim fjársjóði sem felst í tungumálaforða þeirra sem leika og læra á okkar vettvangi. Móðurmál – samtök um tvítyngi kenna um 1000 börnum móðurmál alla laugardaga.  

Hægt er að fræðast um alþjóðlega móðurmálsdaginn á heimasíðu UNESCO. 

SAMFOK - samtök foreldra barna í grunnskólum borgarinnar - hafa staðið fyrir fróðlegum fundum um skólamenningu á Íslandi að undanförnu undir yfirskriftinni Allir með. Þeir eru haldnir á tíu tungumálum.

Víða má finna efni til að fagna alþjóðlegum móðurmálsdegi og vinna með fjölbreytt tungumál. Sjá m.a. stefnu SFS um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf - Heimurinn er hér og Allir með.

Töfrar tungumálanna! 

Laugardaginn 23. febrúar kl. 13:30 býður Borgarbókasafnið, í samstarfi við Móðurmál – samtök um tvítyngi og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, öllum áhugasömum á tungumálabasar í Gerðubergi í tilefni alþjóðlega móðurmálsdagsins. 

Dagskráin hefst á atriði með hinum stórkostlega Sirkus Íslands og tónlistaratriði þar sem sungið verður á ýmsum tungumálum. Það verða skemmtilegar tungumálasmiðjur í hverju horni þar sem meðal annars verður hægt að skrifa bréf til vina og ættingja í öðrum löndum, skreyta tungumálatré með fallegum orðum á öllum heimsins tungumálum, föndra origami og kynnast mismunandi leturgerðum. 

Tungumálafjársjóður: Í tilefni dagsins er efnt til orðasöfnunar. Hvað getum við safnað orðinu vinur á mörgum tungumálum? Berið saman orðin og skoðið hvað þau eiga sameiginlegt.

Lesum saman á fjölbreyttum tungumálum:  Hvetjið börn og foreldra til að koma á bókasafnið og taka með bækur á fjölbreyttum tungumálum. Heimsækið Borgarbókasafnið í þínu hverfi og fáið lánaðar bækur á fjölbreyttum tungumálum. 

Bókasafn Móðurmáls verður á staðnum og sér um skiptibókamarkað í samstarfi við Borgarbókasafnið. Allir eru hvattir til að koma með barna- og unglingabækur á öllum tungumálum sem geta öðlast framhaldslíf og veitt öðrum gleði á nýjum heimilum. Samtök Móðurmáls hafa að undanförnu unnið að því að skrá bækur á ýmsum tungumálum í bókasafnskerfi Gegnis. Viðburðurinn á Facebook