Hátt í 1000 skjáheimsóknir á hálfu ári

Covid-19 Velferð

""

Mikil ánægja er á meðal þeirra notenda heimaþjónustu velferðarsviðs sem nýta sér skjáheimsóknir. Ný könnun sýnir að bæði notendur og aðstandendur þeirra eru ánægðir með þjónustuna. 70 prósent notenda finna til aukins öryggis og 90 prósent þykir hjálplegt að hafa skjáinn á heimilinu.

Síðustu misseri hefur staðið yfir vinna við prófanir margvíslegra tæknilausna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þegar fyrsta bylgja Covid-19 skall á í vor var ákveðið að flýta sérstaklega innleiðingu skjáheimsókna eða myndsamtala sem nýrri þjónustuleið. Starfsfólk í heimaþjónustu fann fljótlega að mikilvægt væri að horfa sérstaklega til þeirra notenda sem hafa lítið stuðningsnet í sínu nánasta umhverfi og eru metnir í meiri áhættu en aðrir á að einangrast á sama tíma og leita yrði leiða til að koma í veg fyrir að smit bærust á milli starfsmanna og notenda. Brugðist var hratt við nýjum aðstæðum og prófunum hrundið af stað á íslenskum hugbúnaði, Memaxi, sem gerir notendum kleift að fá til sín heimsókn á rafrænan máta í gegnum spjaldtölvu. Byrjað var að heimsækja einstaklinga sem voru jafnvel farnir að afþakka þjónustu vegna Covid-19. Smám saman hefur hópur notenda stækkað. Nú, hálfu ári síðar, hefur starfsfólk heimaþjónustu velferðarsviðs hringt hátt í þúsund myndsímtöl og tugir notenda og aðstandenda eru farnir að nýta sér þjónustuna reglulega. 

Nýverið var gerð könnun á viðhorfum og upplifun notenda, aðstandenda og starfsfólks á því að boðið sé upp á skjáheimsóknir í heimaþjónustu. Niðurstöður hennar benda til þess að full ástæða sé til að halda verkefninu áfram.  

Vinalegt að hafa skjáinn á heimilinu

Niðurstöður könnunarinnar sýna að 90 prósent notenda finnst hjálplegt að hafa skjáinn á heimilinu og 70 prósent notenda segjast finna fyrir auknu öryggi. „Þetta er í samræmi við okkar tilfinningu, því notendur hafa sagt okkur frá því að þeim þyki notaleg að sjá bjarmann af skjánum á nóttunni og að þeir upplifi meira öryggi. Það var gott að fá þetta staðfest,“ segir Berglind Víðisdóttir, sérfræðingur í velferðartæknismiðju velferðarsviðs, sem hefur meðal annars það hlutverk að prófa og innleiða nýja tækni í heimaþjónustu borgarinnar. „Mikill og góður stuðningur frá yfirmönnum velferðarsviðs gerði okkur það mögulegt að innleiða skjáheimsóknir hratt. Hjá sviðinu starfar framsýnn hópur stjórnenda sem leggur mikla áherslu á rafrænar lausnir með það að markmiði að gera þjónustuna notendavæna og skilvirka.“

Fljótlega eftir að prófanir hófust á hugbúnaðinum var tekin ákvörðun um að opna fyrir þann möguleika að aðstandendur gætu líka nýtt sér kerfið. Það vakti ánægju og var mikilvæg viðbót, því í mörgum tilvikum voru skjáheimsóknirnar jafnvel einu heimsóknirnar sem fólk fékk, dag eftir dag, á meðan Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst í vor. „Eins og könnunin sýnir jukust samskipti við og á milli fjölskyldumeðlima til muna. Svör aðstandenda studdu líka við þetta en 86% þeirra sögðu þessa þjónustuleið auka öryggi fyrir þeirra ástvin.“ 

Notendur skjáheimsókna fá til sín spjaldtölvu endurgjaldslaust sem eingöngu er notuð í skjásamtölin. Spjaldtölvurnar eru einfaldar í notkun og á færi langflestra að tileinka sér notkun þeirra. Svör notenda staðfesta það en allir sem svöruðu könnuninni sögðu að auðvelt sé að svara skjásímtali og allir sögðu þeir jafnframt að hljómgæði séu góð. 

Komi ekki í stað hefðbundinna vitjana

Þó að skjáheimsóknir hafi verið innleiddar hratt til að bregðast við Covid-19 segir Berglind fulla ástæðu til að halda þeim áfram þegar faraldrinum lýkur. „Það sem Covid-19 hefur kennt okkur er hversu mikilvægt er að geta haldið uppi þjónustu þegar þær aðstæður koma upp að erfitt er að fara inn á heimili fólks. Þær aðstæður einskorðast ekki við Covid-19 og geta til dæmis skapast í óveðrum og náttúruhamförum. Ég tel að skjásamtölin séu komin til að vera. Þær koma ekki í staðinn fyrir fyrir hefðbundnar vitjanir en það er hins vegar ýmislegt sem bendir til þess að sumir kjósi skjáheimsóknir jafnvel fram yfir hefðbundnar vitjanir. Samskipti eru að breytast og í dag þykir mörgum það jafn persónulegt að hittast á skjá eins og í raunheimum. Það er hægt að veita margvíslega þjónustu og meðferð í gegnum skjáinn, svo sem þjálfun af ýmsu tagi, endurhæfingu, mat á líðan, lyfjagjöf og aðstoð vegna næringar og fleira. Með þessari þjónustuleið erum við bæta gæði þjónustunnar og auka öryggi notenda okkar með það að leiðarljósi að styðja við sjálfstæða búsetu. Möguleikarnir eru fjölmargir.“

Smelltu hér ef þú vilt fá upplýsingar um hvernig nálgast má þjónustuna.

Smelltu hér til að sjá þegar Jóhanna Erla Birgisdóttir, verkefnastjóri hjá velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar, spjallar við Bryndísi Zoëga Magnúsdóttur í skjáheimsókn.