Hátíðleg stund á Vaglinum í Þórshöfn

Mannlíf Menning og listir

""

Kveikt var á jólaljósunum á Reykjavíkurtrénu á Vaglinum í Þórshöfn í Færeyjum laugardaginn 1. desember sl.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi afhenti tréð formlega fyrir hönd Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í miðborg Þórshafnar við síðastliðinn laugardag. Þetta er í sjötta sinn sem Reykjavíkurborg færir Þórshafnarbúum tré að gjöf sem þakklætisvott fyrir frændsemi þjóðanna tveggja.

Tréð er 12 metra hátt sitkagreni og var fellt á skógræktarsvæði Skógræktar Reykjavíkur á Elliðavatnsheiðinni í Heiðmörk um miðjan nóvember sl. Eimskip sá um flutning trésins til Færeyja.

Annika Olsen, borgarstjóri Þórshafnar flutti ræðu þar sem hún þakkaði Reykvíkingum fyrir fallega tréð og bað Líf um að bera frændum í vestri kveðju og óskir um gleðileg jól og farsælt nýtt ár.  

"Tí fari eg at biðja Líf Magnuedóttir frá Reykjavíkar býráð, sum hjá mær stendur, um at bera íslendingum eina hjartans tøkk fyri hesa gávuna við ynskjum um eini gleðilig jól og ynskja gott og farsælt nýggjár til frændur okkara fyri vestan".

Því næst voru flutt jólalög og kveikt á jólaljósunum á trénu.