Háteigsskóli, Rimaskóli og Ölduselsskóli Reykjavíkurmeistarar grunnskóla í skák | Reykjavíkurborg

Háteigsskóli, Rimaskóli og Ölduselsskóli Reykjavíkurmeistarar grunnskóla í skák

mánudagur, 26. febrúar 2018

Líf og fjör var á skákmóti grunnskólanna sem haldið er í samstarfi Taflfélags Reykjavíkur og skóla- og frístundasviðs. 

 • Stúlkur úr Rimaskóla urðu sigursælar á mótinu og eru hér með Helga Árnasyni skólastjóra.
  Stúlkur úr Rimaskóla urðu sigursælar á mótinu og eru hér með Helga Árnasyni skólastjóra.
 • Teflt af innlifun
  Teflt af innlifun
 • Sigursveit 1.-3. bekkar úr Háteigsskóla
  Sigursveit 1.-3. bekkar úr Háteigsskóla
 • Sigrusveit Rimaskóla í 4.-7. bekk
  Sigursveit Rimaskóla í 4.-7. bekk
 • Sigursveit Ölduselsskóla í 8.- 10. bekk
  Sigursveit Ölduselsskóla í 8.- 10. bekk

Reykjavíkurmót grunnskólasveita fór fram mánudagana 12. febrúar og 19. febrúar í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur.  Mótið var nú með nýju fyrirkomulagi þar sem skipt var í þrjá flokka; 1.-3. bekk, 4.-7. bekk og 8.-10. bekk. Sigurvegarar í flokki 1.-3. bekkja var Háteigsskóli, í flokki 4.-7. bekkja sigraði Rimaskóli og í flokki 8.-10. bekkja hreppti Ölduselsskóli gullið.

Það var fríður flokkur barna sem reið á vaðið í yngsta aldurhópnum fyrri keppnisdaginn en alls mættu 15 sveitir til leiks. Flestar voru sveitirnar frá Ingunnarskóla eða fimm talsins en Landakotsskóli mætti með fjórar sveitir. Keppnin var jöfn og spennandi en Háteigsskóli náði snemma forystunni og hélt henni allt mótið þó svo að sveit Rimaskóla hafi aldrei verið langt undan. Töluverð spenna var síðan um þriðja sætið og réðust úrslit ekki fyrr en á lokametrunum.

Viku síðar var svo komið að næstu tveimur aldursflokkum. Rimaskóli hafði allnokkra yfirburði í mótinu og fór svo að hann varð langefstur með 25 vinninga af 28. Baráttan um næstu sæti var harðari en þegar yfir lauk kom sveit Háteigsskóla önnur í mark með 19,5 vinning, hálfum vinningi meira en B-sveit Rimaskóla sem varð þriðja með 19 vinninga. Efsta stúlknasveitin kom einnig úr Rimaskóla en hún hlaut 13 vinninga og hafnaði í 10. sæti. 


Fimm sveitir mættu til leiks í elsta aldursflokknum þar af ein stúlknasveit sem kom úr Rimaskóla. Ákveðið var að tefla fimm umferðir allir við alla þar sem ein sveit sat yfir í hverri umferð. Fljótlega kom í ljós að sveit Ölduselsskóla hafði nokkra yfirburði og að sveit Laugalækjarskóla væri líklegust til að veita henni keppni. 3-1 sigur reynslumikilla liðsmanna Ölduselsskóla á Laugalækjarskóla strax í annari umferð lagði línurnar fyrir framhaldið og svo fór að hinir fyrrnefndu stóðu uppi sem sigurvegarar með 14 vinninga af 16 en þeir síðarnefndu höfnuðu í öðru sæti með 11 vinninga. Breiðholtsskóli nældi svo í þriðja sætið með 5,5 vinning og sem eina stúlknasveitin í mótinu hlaut sveit Rimaskóla stúlknaverðlaunin.