Háskólanemi í þjónustuíbúð á vegum velferðarsviðs

Velferð Mannlíf

""

Óðinn Ásbjarnarson, 21 árs nemi í sviðslistum við Listaháskóla Íslands, flutti á dögunum inn í einn af þjónustuíbúðakjörnum fyrir eldri borgara, sem rekin er af velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Óðinn leigir á sömu kjörum og aðrir íbúar en hlutverk hans er að lífga upp á félagslífið á staðnum. Óðinn er þó ekki fyrsti háskólaneminn sem býr í þjónustuíbúð á vegum velferðarsviðs því tveir aðrir tóku þátt í tilraunaverkefni á árunum 2019-2020 sem hafði að markmiði að tengja kynslóðir saman og draga úr félagslegri einangrun eldri borgara.

Tilraunaverkefnið vakti almenna ánægju meðal íbúa og starfsmanna. Íbúar höfðu almennt góða reynslu af nemunum sem veittu þeim nýja sýn á veruleika ungs fólks og stóðu fyrir margvíslegum viðburðum sem annars hefðu ekki verið í boði.

Óðinn hyggst nýta áhugasvið sitt, leiklistina, til að halda ýmiss konar viðburði eins og dans og karókíkvöld en líka setja upp leiksýningu ef stemming verður fyrir því. Hann hefur þó ekki ekki síður áhuga á að heyra hvað nágrannarnir hafa að segja, vill skyggnast inn í þeirra lífsreynslu og sögu og veita þeim jafnframt innsýn í hvernig það er að vera ungur í dag.