Háskólagarðar HR við Öskjuhlið

Framkvæmdir Mannlíf

""

Nýir Háskólagarðar Háskólans í Reykjavík munu brátt rísa við Öskjuhlíðina, í næsta nágrenni við háskólann. Eygló M. Björnsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR,  Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra tóku fyrstu skóflustunguna að fyrsta áfanga Háskólagarðanna í gær, miðvikudaginn 19. september. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist á næstu vikum.

Í þessum fyrsta áfanga Háskólagarðanna, sem er tæpir 5.900 fermetrar á 4-5 hæðum, verða 125 íbúðir til útleigu. Baðherbergi og eldunaraðstaða verður í öllum íbúðum en þvottarými og önnur slík aðstaða verður sameiginleg. Áætlað er að hægt verði að taka íbúðirnar í notkun haustið 2020. Heildarkostnaður er áætlaður um 2,6 milljarðar króna.

Eygló M. Björnsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, sagði við skóflustunguna „Bygging háskólagarðanna hefur verið baráttumál stúdenta í HR í nokkurn tíma og það er gaman að sitja í stjórn stúdentafélagsins þegar það er loksins komið að þessu. Ég er mjög ánægð með þennan frábæra árangur, að fara frá þarfagreiningu nemenda árið 2014 í skóflustungu að Háskólagörðunum.“

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir að með byggingu Háskólagarða sé stigið stórt skref til að bæta enn frekar þá þjónustu sem HR veitir nemendum sínum.  „Við vitum hversu erfitt það getur verið fyrir nemendur að finna íbúðarhúsnæði við hæfi og á hagkvæmum kjörum. Með Háskólagörðum HR bjóðum við nemendum glænýtt húsnæði á besta stað og á lægsta leiguverði sem hægt er að bjóða, enda Háskólagarðar ekki reknir í hagnaðarskyni."  Ari segir að nemendur HR eigi stóran þátt í að komið sé að þessum tímamótum. „Nemendur hafa unnið með okkur í ferlinu, allt frá fyrstu hugmyndum til þarfagreiningar og útfærslu. Þetta eru þeirra Háskólagarðar."

Í nýju deiliskipulagi á lóð HR við Öskjuhlíð er gert ráð fyrir byggingu samtals 390 íbúða. Þetta eru allt frá litlum einstaklingsíbúðum, um 25 fermetrar að stærð, upp í um 80 fermetra þriggja herbergja íbúðir. Nokkrar íbúðanna munu einnig nýtast til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir starfsfólk HR og starfsfólk fyrirtækja sem starfa innan HR og önnur þekkingarfyrirtæki sem tengjast háskólanum. Auk íbúða verður þjónustukjarni með fjölbreyttri þjónustu syðst á svæðinu, næst HR. Uppbyggingin mun fara fram í fjórum áföngum.

Það eru Kanon arkitektar sem hanna byggingarnar og verktaki er Jáverk. Í gær var einnig skrifað undir samninga um framkvæmdir og fjármögnun fyrsta áfanga Háskólagarðanna við Jáverk og Landsbankann.