Handbók um foreldrarölt

Velferð Skóli og frístund

""

Frístundamiðstöðin Tjörnin, sem starfar í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ, hefur gefið út handbók  um foreldrarölt.

Í handbókinni er fjallað um hvers vegna foreldrarölt skiptir svona miklu máli og settar fram tillögur að því hvernig foreldrar geta skipulagt það. Þá eru í handbókinni upplýsingar um tengiliði. Markmiðið með útgáfunni er að foreldrar og forsjáraðilar hafi góðan leiðarvísi fyrir þetta mikilvæga starf.

Foreldraröltið tengir saman foreldra, styrkir þau í hlutverkinu sínu og stuðlar að öruggara nærumhverfi fyrir börn og unglinga. Forstöðumenn félagsmiðstöðva Tjarnarinnar hafa sent  handbókina til bekkjarfulltrúa og foreldrafélaga allra grunnskóla í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ sem hafa það hlutverk að vera ábyrgðaraðilar röltisins.

Frístundamiðstöðin Tjörnin vinnur þessi misserin að innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar, Látum draumana rætast. Þróunarverkefnið Föruneytið er ein þeirra leiða sem farin er til að framfylgja stefnunni og hefur að markmiði að efla félagslegt taumhald barna og unglinga hverfisins.

Íslendingar hafa verið í fararbroddi í forvörnum og hefur verið litið til íslenska forvarnarlíkansins í öðrum Evrópuríkjum. Góðan árangur má ekki síst þakka aukinni þátttöku barna og unglinga í skipulögðum tómstundum og þar af leiðandi minni neyslu áfengis og annarra vímuefna. Einn lykilþátturinn í forvarnarmódelinu er samvinna allra aðila sem koma að uppeldi barna og unglinga og þar er foreldraröltið afar mikilvægt. Foreldraröltið og eftirfylgni lögboðins útivistartíma eflir öryggi í hverfum og býr til samfélag þar sem foreldrar og forsjáraðilar sýna ábyrgð og vinna saman.

Handbók um foreldrarölt.