Á handahlaupum við að manna í stöðurnar

Covid-19

Starfsfólk sinnir íbúa í sóttkví í fullum skrúða.

Víðs vegar í viðkvæmri starfsemi velferðarsviðs glíma stjórnendur nú við mikinn mönnunarvanda. Starfsfólk á íbúðakjörnum þar sem staðan er skárri hleypur undir bagga á þeim stöðum þar sem staðan er þung. Þá hafa sérfræðingar af skrifstofu velferðarsviðs, sem hafa reynsu af störfum með fötluðu fólki, farið úr skrifstofufötunum og í sóttvarnagallana til að redda málum. Íbúum leiðist mörgum hverjum að vera í sóttkví eða einangrun. Þeim finnst ekki öllum þægilegt að fá nýtt fólk inn á gólf til sín en upp til hópa sýna þeir umstanginu skilning.

Ein þeirra forstöðumanna á velferðarsviði sem staðið hafa í ströngu undanfarna daga er Anna María Steindórsdóttir, forstöðumaður í Bleikargróf, sem er íbúðakjarni þar sem fimm fullorðnir fatlaðir einstaklingar búa. „Þetta er búið að vera mikið áhlaup. Ég fékk skilaboð á laugardagskvöld um jákvæða niðurstöðu hjá einum af íbúunum hér. Þá var bara að anda djúpt og setja sig í stellingar. Þetta er búið að vera mikið púsluspil, vinna á gólfinu sjálf meðfram því að skipuleggja starfsemina og stappa stálinu í íbúa, sem sumir voru svolítið smeykir við þetta ástand. Vð erum eiginlega búin að vera á handahlaupum.“

Íbúar í Bleikargróf hafa tekið stöðunni af rósemd þó þeim þyki ekki mikið varið í að komast ekki til sinna daglegu starfa. „Ég var leiður að þurfa að fara í sóttkví,“ segir Haraldur Brynjar Sigurðsson og Hlynur Svansson tekur undir það. „Maður saknar dáldið vinnunnar og svo er skrýtið að sjá nýtt fólk í búningum hérna.“

Það getur reynst talsvert á starfsfólk að sinna íbúum sem smitast. Það þarf að gera í slopp, með hárnet, skjöld og hanska. „Starfsfólkið þarf að vera inni á íbúð viðkomandi á löngum vöktum. Við höfum ekki nógu mikla mönnun til þess að skipta út fólki, svo þetta getur reynt talsvert á en starfsfólkið hefur staðið sig eins og hetjur og íbúarnir líka,“ segir Anna María.

Á íbúðakjarnanum starfar margt ungt fólk sem upphaflega var bólusett með Janssen en sá hópur hefur ekki allur fengið örvunarbólusetningu. Það starfsfólk fær því ekki undanþágu frá sóttkví, líkt og gildir um þríbólusetta, sem gerir mönnunina enn flóknari. Allir íbúarnir og tólf starfsmenn fóru í sóttkví. Þrír starfsmenn voru fullbólusettir og tveir fengu undanþágu frá sóttkví.

Nú sér fyrir endann á ástandinu í Bleikargróf en stjórnendur annarra íbúðakjarna á velferðarsviði glíma nú við svipað ástand. Þeir, líkt og Anna María, fá stuðning frá til að takast á við mönnunarvandann frá öðrum stöðum á velferðarsviði þar sem staðan er betri. „Mér finnst ég hafa fengið mjög góðan stuðning. Mannauðsdeildin hefur verið frábær að bregðast við og leita allra leiða til að fá fólk hingað inn. Við höfum fengið aðstoð frá bakvarðasveit, starfsfólki annarra íbúðakjarna og svo hafa verið hér sérfræðingar af skrifstofu fötlunarmála á velferðarsviði. Þetta hafa verið langir dagar en andrúmsloftið hefur verið mjög jákvætt og allir hafa lagst á eitt við að hjálpa og styðja við okkur.“