Hafnarhús, Listasafn og hús skapandi greina

Hafnarhúsið við Tryggvagötu.

Borgarráð hefur samþykkt að stofnað verður sjálfseignarfélag um útleigu á hluta Hafnarhússins sem leigurýmis fyrir vinnu- og lærdómsaðstöðu skapandi greina í miðborg Reykjavíkur.

Samið verður við Harald Inga Þorleifsson fyrir hönd óstofnaðs sjálfseignarfélags um rekstur í Tryggvagötu 17, Hafnarhúsinu, á rýmum fyrir skapandi greinar. Reykjavíkurborg hefur gengið frá kaupum á þeim hluta Tryggvagötu 17 sem var í eigu Faxaflóahafna. og verður afhending húsnæðisins í júní næstkomandi.  

Miðstöð skapandi greina

Reykjavíkurborg stefnir að því að endurbyggja og innrétta húsið á næstu árum þar sem gert er ráð fyrir listasafni Nínu Tryggvadóttir ásamt aðstöðu fyrir aðrar listgreinar. Á meðan er gert ráð fyrir að nýta húsnæðið til bráðabirgða fyrir vinnu- og lærdómsaðstaða í miðborg Reykjavíkur þar sem mismunandi skapandi greinar svo sem listgreinar, hönnun, forritun og önnur nýsköpun komi saman.

Auglýst var eftir samstarfsaðila til að reka miðstöð fyrir skapandi greinar í Hafnarhúsinu og skoraði Haraldur flest stig í mati á hæfni til að taka við rekstri sjálfseignarfélagsins. Auk hans sendu inn gögn SÍM, Hallur Helgason og King og Bong.

Rýmið til ráðstöfunar í húsinu verður að hámarki um 3.500 fermetrar og skoðað verður hvort einhver starfsemi á vegum Reykjavíkurborgar geti nýtt sér hluta hússins. Markmiðið er að efla sköpun í breiðum skilningi, binda saman sköpunarkraft einstaklinga og minni fyrirtækja í borginni, efla fræðslu og þekkingarmyndun fyrir skapandi fólk og ýta undir tengslamyndun í skapandi greinum.

List, almannarými og kaffihús

Þegar horft var á nýtingu hússins var farið í hugarflug eða hópavinnu um hlutverk Hafnarhúss. Við val á þátttakendum í hugarflugið var höfð í huga tillaga borgarstjóra um að „kallað verði eftir aðkomu fjölbreyttra fulltrúa listafólks og borgarbúa á öllum aldri, Listasafns Reykjavikur, bakhjarla Safns Nínu Tryggvadóttur, Erró-safnsins, Listaháskóla Íslands, tónlistarhússins Hörpu og annarra hagaðila“.

Þátttakendur voru sammála um að mikilvægt er að húsið geti orðið að almannarými með kaffihúsi, veitingastað, barnarými og rými til að slappa af. Til þess að þetta verði að veruleika og heppnist vel þarf að vera til staðar rekstrareining sem rekur Hafnarhúsið sem heild með öflugri listrænni stjórnun sem sameinar söfnin í húsinu.

Horft var til þess að þátttakendur í hugarflugi hefði mismunandi bakgrunn og að jafnvægi væri í kynjadreifingu og aldri. Hugarflugið fór fram þrjá daga þar sem raðað var saman fjölbreyttum hópi fólks en í hópi þátttakenda voru tólf konur, tíu karlar og eitt kvár.

Teikning af Hafnarhúsinu sem sýnir skiptingu rýma