Hækkun á styrk svifryks við umferðargötur

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

""

Litlar líkur eru á úrkomu næstu daga og því líklegt að styrkur svifryks fari yfir heilsuverndarmörk. Mikilvægt er að ökumenn skipti út nagladekkjum sem fyrst til að minnka líkur á svifryksmengun. Styrkur svifryks verður líklega yfir sólarhringsheilsuverndarmörkum í dag.

Styrkur svifryks (PM10) er hár í dag, 5. apríl samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut. Klukkan 11:00 var hálftímagildi svifryks við Grensásveg 131 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Hringbraut var hálftímagildið á sama tíma 113 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöðvum við Eiríksgötu og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum voru svifryksgildin mun lægri.

Nú er hægur vindur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu næstu daga. Búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum á næstunni og því líkur á svifryksmengun við umferðargötur. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Hvað er hægt að gera?

Samgöngur eru helsta uppspretta loftmengunar í Reykjavík og þar eru því tækifærin til að breyta. Reykjavíkurborg hefur eindregið hvatt borgarbúa til að tileinka sér fjölbreytni í samgöngum, hjóla, ganga og nota almenningssamgöngur.

Reykjavíkurborg hefur hvatt ökumenn í tvo áratugi að velja fremur góð vetrardekk heldur en nagladekk yfir vetrartímann. Það gæti dregið verulega úr loft- og hljóðmengun og sliti á malbiki. Hlutfall ökutækja á negldum dekkjum reyndist vera 45% en 55% voru án nagla í marsmánuði. Það er því verk að vinna. Nagladekk eru ekki leyfileg í Reykjavík frá 15. apríl. Ökumenn og eigendur bifreiða eru því hvattir til að skipta sem fyrst yfir sumardekk eða heilsársdekk.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar bókaði í nýlega: „Hin mikla svifryksmengun sem leggst reglulega yfir borgina ógnar heilsu borgarbúa. Ekki er hægt að sætta sig við óbreytt ástand. Ljóst er að mikill hluti mengunarinnar kemur frá bílaumferð. Þar munar mest um mikla notkun nagladekkja í borginni og hátt hlutfall díselbifreiða. Götur borgarinnar eru þrifnar reglulega en alltaf er hægt að gera betur. Varanlegur árangur næst þó ekki nema ráðist verði að rót vandans. Ráðið beinir því til umhverfis og skipulagssviðs að koma með tillögur um leiðir til þess.”

Viðkvæm fyrir í öndunarfærum

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Það hvetur þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðagatna.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á http://reykjavik.is/thjonusta/loftgaedi-i-reykjavik. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu og við Hringbraut 26.