Hækkun á styrk svifryks í borginni vegna sandfoks frá Suðurlandi

Fyrir ári síðan byrgði sandfok sýn að Esjunni en þá var líka svifryk vegna sandfoks af Suðurlandi.
Sandfok yfir Höfða í Reykjavík.

Styrkur svifryks (PM10) hefur verið hár í borginni frá því í gærkvöldi og hefur haldist hár núna fram á morguninn 10. júní. Klukkan 9:00 var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 97 míkrógrömm á rúmmetra, í mælistöð á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar var klukkustundargildið 93,5 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Laugarnes 74,8 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. 

Samkvæmt Veðurstofu Íslands er ryk að berast inn á höfuðborgarsvæðið frá söndunum á Suðurlandi. Hægur vindur hefur verið í borginni og því hefur rykið haldist á svæðinu. Búist er við að bæti í vind þegar líða fer á daginn og ættu loftgæði að fara batnandi.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur þá sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraða og börn til að forðast útivist meðan svifryk er hátt. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.isÞar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.