Hækkun á styrk svifryks í borginni vegna ryks frá hálendinu

Umhverfi

""

Styrkur svifryks í borginni hefur verið hár síðasta sólarhring og var kl. 16 yfir 50 míkrógrömmum á rúmmetra sem eru leyfileg sólahringsmörk í öllum mælistöðvum borgarinnar.  Hæsta gildið mælist við Vesturbæjarlaug, 213,8 míkrógrömm á rúmmetra. Að þessu sinni er um að ræða ryk sem berst til borgarinnar ofan af hálendi landsins, ekki umferðartengda mengun. Miðað við stöðuna núna má gera ráð fyrir því að svifryk fari yfir sólahringsheilsuverndarmörk í dag. Samkvæmt veðurspá verður rigning og talsverður vindur í Reykjavík á morgun og því ekki líkur á að þetta ástand verði viðvarandi.  

Í ljósi aðstæðna ættu þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu utandyra.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.

Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við gatnamótin Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar og við Vesturbæjarlaug.