Hækkun á styrk svifryks

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Hækkun á styrk svifryks vegna uppþyrlunar ryks úr umhverfinu.

Styrkur svifryks (PM10) er hár í dag, 4. mars skv. mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Njörvasund/Sæbraut. Klukkan 14:00 var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 119,0 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildið á sama tíma 106,4 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Egilshöll 33,4 míkrógrömm á rúmmetra. Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógrömm á rúmmetra. Nú er hægur vindur og kalt, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu. Næstu daga er búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Almenningur er því hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðagatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Fylgjast má með loftgæðum á loftgæði.is.