Hækkun á styrk svifryks | Reykjavíkurborg

Hækkun á styrk svifryks

fimmtudagur, 15. nóvember 2018

Styrkur svifryks (PM10) er hár í dag, 15. nóvember skv. mælingum í mælistöðvum við Grensásveg og Fossaleyni/Víkurvegur.

  • Svifryk mælist nú hátt. Minnt er á að nagladekk valda margfalt meiri svifryksmengun en venjuleg vetrardekk.
    Svifryk mælist nú hátt. Minnt er á að nagladekk valda margfalt meiri svifryksmengun en venjuleg vetrardekk. Reykjavíkurborg hvetur til þess að fólk nýti sér fjölbreytilega samgöngumáta til ferða í borginni.

Mikið ryk hefur í dag þyrlast upp úr umhverfinu og styrkur svifryks (PM10) er því hár í dag samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg og Fossaleyni/Víkurvegur. Klukkan 14:00 var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 193 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Fossaleyni/Víkurvegur var klukkutímagildið á sama tíma 96 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 45 míkrógrömm á rúmmetra. Búist er við úrkomu þegar líður á kvöldið og þá allar líkur á að styrkur svifryks lækki.  

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Einungis er nú hægt að fylgjast með styrk svifryks í Farstöð II sem staðsett við gatnamótin Fossaleynir/Víkurvegur í Grafarvogi. Unnið er að uppsetningu á nýjum hugbúnaði í Farstöð I sem skráð er við Hringbraut og í loftgæðastöðvum Umhverfisstofnunar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum (FHG) og á Grensásvegi. Marktæk gögn munu því ekki birtast á vefnum frá þessum þremur stöðvum næstu daga. Heilbrigðiseftirlitið fylgist þó með mæliniðurstöðum og gefur út tilkynningar ef þurfa þykir.