Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs og svifryks í borginni

Samgöngur Umhverfi

Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) og svifryks (PM10) var nokkuð hár í borginni í morgun, 30. desember, skv. mælingum í mælistöðvunum við Grensásveg, Vesturbæjarlaug og Laugarnes. Gott væri að fækka ferðum á bílum.

Klukkan 12 var styrkur svifryks á Grensásvegi 27 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 100,3 míkrógrömm á rúmmetra en svifryksgildi kl. 11 var 109 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöðinni við Vesturbæjarlaug var styrkur svifryks 105,4 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 64,9 míkrógrömm á rúmmetra og í Laugarnesi var styrkur svifryks 60,7 míkrógrömm á rúmmetra og köfnunarefnisdíoxíðs 71,4 míkrógrömm á rúmmetra.

Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnanna og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Uppspretta svifryks er uppspænt malbik, jarðvegsagnir, salt og sót úr útblæstri bifreiða. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir svifryk PM10 50 míkrógrömm á rúmmetra. 

Fækka bílferðum og forðast umferðargötur

Nú er hæg­ur vind­ur og göt­ur þurr­ar og er búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum fram á morgundag og því lík­ur á svifryks- og köfn­un­ar­efn­is­díoxíðmeng­un einkum við um­ferðargöt­ur núna seinni partinn. Hvernig er best að bregðast við?

Hægt er að draga úr þessari mengun með því að fækka bílferðum en börn og þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum verða að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna. 

Fylgst með loftgæðum í borginni

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við gatnamótin Bústaðavegur/Háaleitisbraut og hin við Vesturbæjarsundlaug.

Loftgæði