Hægt að sækja um sérstakan frístundastyrk til júlíloka

Covid-19 Velferð

""

Sérstakan frístundastyrk má nota til að borga fyrir sumarnámskeið barna eða aðra tómstundaiðkun. Framfærendur, einstaklingar, hjón eða sambúðarfólk sem hafði lægri meðaltekjur en 740.000 krónur á mánuði á tímabilinu mars til júlí 2020 geta sótt um styrkinn.

Sérstaki frístundastyrkurinn er hluti af aðgerðapakka ríkisins sem ætlað er að veita mótvægi vegna áhrifa Covid-19-faraldursins. Umsóknarfresturinn vegna hans hefur verið framlengdur og er nú til 31. júlí næstkomandi. Frestur til að skila inn kvittunum, eftir að umsókn hefur borist, er 15. ágúst.

Framlenging styrksins opnar á möguleika á því að foreldrar eða aðrir framfærendur noti styrkinn til að greiða fyrir sumarnámskeið barna sinna. Miðað er við að tómstundariðkunin fari fram á skólaárinu 2020–2021 eða yfir sumarið 2021. Hægt er að koma með kvittanir fyrir íþrótta- og tómstundarstarfi sem greitt var fyrir í upphafi skólaárs eða frá hausti 2020.

Áður en sótt er um styrkinn hjá Reykjavíkurborg þarf að kanna hvort heimilið falli undir tekjuviðmiðin. Það er gert með því að skrá sig inn á https://island.is/covid-adgerdir/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs með rafrænum skilríkjum. Með einföldum hætti má þar kanna hvort forráðamenn eigi rétt á styrk. Ef jákvætt svar fæst opnast hlekkur inn á vefsvæði hjá Reykjavíkurborg. Þar er gefið upp tölvupóstfang og veittar bankaupplýsingar. Þar er því næst hægt að hlaða inn kvittunum vegna greiðslu íþrótta eða tómstunda. Greiðsla berst svo í kjölfarið, að jafnaði innan 14 daga.